Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilhjálmur Ketilsson látinn
Mánudagur 8. september 2003 kl. 09:01

Vilhjálmur Ketilsson látinn

Vilhjálmur Ketilsson, skólastjóri Myllubakkaskóla í Keflavík varð bráðkvaddur laugardaginn 6. september. Hann var 53 ára og lætur eftir sig eiginkonu, Sigrúnu Birnu Ólafsdóttur og fjögur eftirlifandi börn, Garðar Ketil, Margeir, Svan og Völu Rún. Þau hjón eignuðust einnig Ásgeir sem dó í frumbernsku og Vilhjálm sem lést tvítugur að aldri árið 2000. Barnabörn Vilhjálms og Sigrúnar eru sjö talsins. Foreldrar Vilhjálms eru Ketill Vilhjálmsson og Valgerður Sigurgísladóttir sem lést á síðasta ári. Vilhjálmur var elstur fimm bræðra en eftirlifandi bræður hans eru Magnús, Sigurgísli, Páll og Valur.Vilhjálmur var skólastjóri Myllubakkaskóla í aldarfjórðung. Hann tók við þeirri stöðu 1978, þá 28 ára gamall og gegndi því starfi alla tíð að undanskildum árunum 1986-1988 þegar hann var bæjarstjóri í Keflavík.
Vilhjálmur lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur og tók stúdentspróf og kennarapróf í Kennaraskóla Íslands. Vilhjálmur starfaði á sínum yngri árum með námi hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og hjá Olíufélaginu Esso á Keflavíkurflugvelli. Þá var hann æskulýðsfulltrúi Keflavíkur árin1974-77. Vilhjálmur var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn 1986 til 1994. Samhliða því gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum í bæjarpólitíkinni.
Vilhjálmur var í gullaldarliði Keflavíkur í knattspyrnu og Íslandsmeistari með ÍBK 1969, 71 og 73 og lék auk þess nokkra leiki með unglingalandsliði Íslands. Þegar hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna vegna meiðsla sem hann hlaut í Evrópuleik gegn Tottenham starfaði hann m.a. sem formaður knattspyrnuráðs Keflavíkur.
Fyrir leik Keflavíkur og Njarðvíkur í 1. deild Íslandsmótins í knattspyrnu í gær var Vilhjálms minnst með mínútuþögn auk þess sem leikmenn léku með sorgarborða í hans minningu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024