Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilhjálmur býður sig fram í 3. sæti
Fimmtudagur 4. ágúst 2016 kl. 10:20

Vilhjálmur býður sig fram í 3. sæti

Ætlar að berjast fyrir bættum samgöngum í kjördæminu

Vilhjálmur Árnason mun sækjast eftir 3. sæti í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingmanninum sem búsettur er í Grindavík. Þar segist hann ætla að berjast sérstaklega fyrir bættum samgöngum í kjördæminu. Hér að neðan má lesa tilkynningu Vilhjálms.

„Það hefur verið ánægjulegt og lærdómsríkt að sitja á Alþingi síðastliðin þrjú ár en þar hef ég fengið að kynnast og koma að fjölmörgum mikilvægum málum. Þar ber helst að nefna þau mál sem tengjast þingnefndunum tveimur sem ég hef átt sæti í undanfarin ár - umhverfis- og samgöngunefnd og allsherjar- og menntamálanefnd - en þær endurspegla vel málefni grunnþjónustunnar sem ég hef lagt hvað mesta áherslu á í störfum mínum á Alþingi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á kjörtímabilinu hef ég sinnt heilbrigðis- og öryggisþjónustu málum af miklum krafti en þar hefur löggæsla og nauðsynleg þjónusta eins og fæðingarþjónusta, bráðaþjónusta og utanspítalaþjónusta verið mér hugleikinn. Þá hef ég fengið að vinna að mörgum brýnum málum er tengjast umhverfismálum, ferðaþjónustunni, skógræktinni og áfram mætti telja. Enn fremur hafa samgöngur átt hug minn allan en ég hef verið ötull talsmaður bættra samgangna enda eitt stærsta úrlausnarefnið sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir á komandi árum.

Ég er drifinn áfram af einlægum vilja til að vinna þessum mikilvægu málum framgang. Því hef ég ákveðið að gefa kost á mér til endurkjörs og óska eftir stuðningi ykkar í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem fram fer hinn 10. september nk.. Framboðið mun ég helga baráttunni fyrir bættum samgöngum. Það geri ég vegna þess að samgöngur eru allri þjóðinni mikilvægar enda stuðla þær að fjölþættu og blómlegu atvinnulífi sem er forsenda góðra lífskjara.

Öruggar og greiðar samgöngur tryggja þar að auki:

- bætt umferðaröryggi
- minna álag á heilbrigðiskerfið og löggæslu
- aukinn hagvöxt sem nota má í grunnþjónustu og til að lækka álögur
- hagkvæmari rekstur á opinberri þjónustu
- betra aðgengi að opinberri þjónustu
- stærra atvinnusvæði
- betri búsetuskilyrði
- uppbyggingu ferðaþjónustunnar og stuðla að aukinni náttúruvernd
- atvinnuuppbyggingu og mannlíf


Þá er víða brýn þörf fyrir nauðsynlegar framkvæmdir og úrbætur í fjölbreyttu samgöngukerfi Suðurkjördæmis (sem ekki hægt er að slá á frest vegna aukins ferðamannastraums) en meðal þess sem helst ber að nefna er:

- viðhald vegakerfisins
- tvöföldun stofnbrauta út frá höfuðborgarsvæðinu
- útrýming einbreiðra brúa
- lagfæring héraðsvega, tengivega og hálendisvega
- framkvæmdir við hafnarmannvirki
- ferjusiglingar
- framkvæmdir við innanlandsflugvelli
- fjarskipti - sjóvarnir o.fl.


Engum dylst að samgöngumál eru eitt brýnasta málefni kjördæmisins. Raunar eru samgöngumál Suðurkjördæmis farin að varða þjóðarhag, en sú gríðarlega fjölgun ferðamanna sem sækja landið heim hefur orðið til þess að nauðsynlegt er að bregðast við. Þess vegna mun ég líta á þann stuðning sem ég fæ í prófkjörinu sem stuðning við bættar samgöngur.“ 

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður