Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilhjálmur Árnason sækist eftir oddvitasætinu
Vilhjálumr Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Mynd af Facebook-síðu Vilhjálms.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 20. febrúar 2021 kl. 12:31

Vilhjálmur Árnason sækist eftir oddvitasætinu

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setti fram yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann segist vilji leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningar í haust.

Vilhjálmur mun því etja kappi við Pál Magnússon sem leiddi listann í síðustu alþingiskosningar en Vilhjálmur leggur áherslu á að nú sé kominn tími á nýja kynslóð til forystu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tilkynningu Vilhjálms má lesa hér:

NÝ KYNSLÓÐ TIL FORYSTU
Kæru vinir í Suðurkjördæmi,

Ég man hvernig mér leið þegar ég náði fyrst kjöri á Alþingi, þá tæplega þrítugur að aldri. Mér fannst það mikill heiður að vera treyst fyrir því að starfa í ykkar þágu. Það hefur ekkert breyst. Á þeim átta árum sem liðin eru síðan hefur reynslan hins vegar þroskað mig, þekkingin aukist og hæfnin til að vinna með ólíku fólki sömuleiðis.

Ég hef lagt mikið upp úr að rækta tengslin við fólkið í kjördæminu en þau hafa aldrei verið meiri en síðasta árið, þökk sé tækninni. Ég veit að alltof margir eiga nú um sárt að binda enda hafa atvinnugeirar nánast lamast vegna heimsfaraldursins. Höggið er mörgum þungt. Á sama tíma er mikils virði að finna kraftinn sem býr í fólkinu í Suðurkjördæmi. Á þeim grunni byggjum við til framtíðar.

Ég vil leggja allt mitt í endurreisn atvinnulífsins og fjölgun starfa. Það er stærsta verkefni stjórnmálanna næstu misseri og má ekki mistakast. Ég vil líka að fólkið í kjördæminu búi við öfluga heilsugæslu og mun berjast fyrir því af krafti að einkarekin heilsugæsla fái að blómstra hér eins og á höfuðborgarsvæðinu. Það er sú heilsugæsla sem mest ánægja er með þar, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Við eigum að gera það sem virkar.

Mörg önnur baráttumál brenna á mér sem betra tóm gefst til að ræða síðar. Ég á annað erindi við ykkur að þessu sinni. Ég þekki hjartsláttinn í þessu stóra kjördæmi þar sem flóra íbúa er eins fjölbreytileg og í náttúrunni sjálfri. Þetta er umhverfi sem ég þekki vel.

Það er mikilvægt að ný kynslóð hasli sér völl og taki forystu í þeim verkefnum sem framundan eru. Þess vegna vil ég leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og óska eftir fyrsta sætinu í prófkjörinu þann 29. maí næstkomandi.

Ég hef metnað, reynslu og þekkingu til að leiða lista sjálfstæðismanna. Ég er reiðubúinn að vera bæði verkstjóri og liðsmaður í góðu teymi sjálfstæðisfólks sem ætlar að ná góðri uppskeru fyrir Suðurkjördæmi og landið allt.

Kæru vinir. Ég bið um ykkar stuðning.“