Vildu fresta málinu og fá nýtt verðmat
Þrjár tillögur A-listans voru felldar af sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær þegar viðskiptasamningur bæjarins og Geysis Green Energy (GGE) um HS fyrirtækin voru þar til umræðu.
Fyrsta tillagan var á þá leið að bæjarstjórn frestaði kaupum á landsvæðum í eigu HS Orku og nú þegar yrðu hafnar þríhliða viðræður sveitarfélagsins við Grindavíkurbæ og HS Orku þar sem lausn yrði fundin á ágreiningi um landakaup.
Sjálfstæðismenn felldu tillöguna en sögðust í bókun taka undir með bæjarfulltrúum A-lista að bjóða til þríhliða viðræðna við HS Orku og Grindavíkurbæ varðandi úrlausnir í landakaupamálum.
Jafnræðis skuli gætt um afnotaréttinn
Önnur tillagan var á þá leið að fyrirliggjandi hagnýtingarsamningi við HS Orku yrði hafnað á grundvelli þess að ljóst þætti að hann bryti í bága við 8. grein laga á orku- og auðlindasviði þar sem segir að „við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skuli gæta jafnræðis.” Rétt væri að eyða allri réttaróvissu áður en lengra yrði haldið. A-listinn hefur m.a. gagnrýnt að gengið skyldi beint til samninga við GGE án þess að hleypa öðrum að.
„Afnotaréttur er nú í eigu HS Orku hf og gæti verið svo um margar ókomnar aldir. Með samningi við HS Orku hf. kaupir nú Reykjanesbær land og auðlind af HS Orku hf. en gerir samtímis samning um að HS Orka virki áfram á svæðinu og leigi nýtingarréttinn,“ segir í bókun meirihlutans vegna þessa.
Stuðst við hæsta verðmat
Í þriðju tillögunni var lagt til að bæjarstjórn samþykkti að fresta öllum áformum um sölu á hlut sínum í HS Orku til GGE og kaupum sveitarfélagsins á hlut GGE í HS Veitum. Rétt væri að láta fara fram sjálfstætt mat á virði félaganna hvors um sig til þess að taka af allan vafa um rétt væri að málum staðið. Að loknu slíku mati yrði það kynnt íbúum Reykjanesbæjar sem í kosningu tækju ákvörðun um hvort viðskipti með ofangreinda eignahluti ættu að eiga sér stað.
Sú tillaga var felld eins og hinar af meirihlutanum, sem segir bókun að sjö verðtilvísanir liggi til grundvallar verðmati því sem Reykjanesbær byggi á við kaup og sölu vegna HS.
Það sé því alrangt að ekki hafi verið unnið verðmat, heldur sé stuðst við hæsta verðmat fyrirtækisins í heild og vandað verðskiptingarmat Capacent, þegar þessi viðskipti voru ákveðin.
--
VFmynd/elg – Frá sögulegum bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Guðbrandur Einarsson í pontu. Árni Sigfússon hlýðir á.