Víkurfréttir og Eiríkur Árni fengu menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2007
Víkurfréttir fengu í kvöld Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2007, ásamt Eiríki Árna Sigtryggssyni tónskáldi úr Reykjanesbæ. Súlan var afhent við hátíðlega athöfn í Bíósal DUUS-húsa að viðstöddu fjölmenni. Það er menningarráð Reykjanesbæjar sem veitir viðurkenninguna en þetta var í ellefta sinn sem Súlan var veitt.
Viðurkenningarnar eru tvær, handhafi annarrar er einstaklingur eða hópur sem unnið hefur vel að menningarmálum í bænum og handhafi hinnar er fyrirtæki sem þótt hefur sýna menningarlífi bæjarins góðan stuðning t.d. með fjárframlögum eða með öðru móti. Það er Menningarráð sem velur verðlaunahafana eftir tilnefningum frá bæjarbúum.
Viðurkenningin er í formi listgrips, sem listakonan Elísabet Ásberg hannaði og smíðaði og má þar sjá Súluna sem er í merki bæjarins.
Um Víkurfréttir:
Víkurfréttir hafa í áraraðir stutt við menningarlíf Reykjanesbæjar með margs konar umfjöllun. Miðlar fyrirtækisins, fyrst aðeins prentaða útgáfan og síðar einnig vefurinn og kapalsjónvarpið, hafa staðið fólki opnir með kynningar og umfjöllun um menningu, listir og mannlíf. Fjölmargar fréttatilkynningar frá menningarstofnunum bæjarins, kórunum og öðrum menningarhópum hafa verið birtar án endurgjalds þannig að íbúar hafa fengið að vita hvað fram undan er og einnig hafa blaðamenn verið duglegir að skrifa fréttir um merkilega viðburði eftir að þeir hafa slegið í gegn og þannig stuðlað að því að gera menningarlífið sýnilegra og þar með öflugra.
Einnig hafa Vikurfréttir oftar en einu sinni lagt einstaka verkefni sérstakt lið með því að birta auglýsingar án endurgjalds og er þar skemmst er að minnast þegar ungt fólk í Reykjanesbæ setti upp söngleikinn Öskubusku í Frumleikhúsinu. Víkurfréttir kostuðu allar auglýsingar vegna sýninganna, auk þess að leggja til leikskrá og veggspjöld. Víkurfréttir hafa kappkostað við að kynna alla stóra menningarviðburði í sveitarfélaginu s.s. Ljósanótt á veglegan hátt og í raun má segja að í gegnum Víkurfréttir megi lesa menningarsögu svæðisins hin síðari ár.
Um Eirík Árna Sigtryggsson:
Eiríkur Árni er fæddur 14. sept. 1943 og ólst hann upp í Keflvík. Hann útskrifaðist sem tónlistarkennari árið 1963 og hóf þá strax störf við tónlistarkennslu en hann hefur kennt víða m.a. í Svíþjóð en við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur hann kennt í rúma tvo áratugi og er þar starfandi í dag. Hann hefur verið ötull liðsmaður ungra tónlistarmanna við að aðstoða þá við útsetningar allt frá dægurlögum til klassískra verka.
Eiríkur hefur ekki aðeins starfað sem tónlistarkennari og kórstjóri m.a. með Karlakór Keflavíkur heldur hefur hann einnig verið virkur tónsmiður. Árið 1983 fór Eiríkur í tónsmíðanám til Bandaríkjanna og Kanada og höfum við fengið að njóta þess. Hann hefur samið a.m.k. 5 sinfoníur, strengjakvartetta, gítarkonsert, klarinettukonsert, konsert fyrir tvær flautur og strengjasveit, kórverk og orgelverk. Mörg verka hans hafa verið flutt hér í bæjarfélaginu einnig hefur Sinfoníuhlómsveit Íslands frumflutt verk eftir hann oftar en einu sinni.
Eiríkur lagði einnig stund á myndlistarnám og kenndi myndlist jafnhliða tónlistarkennslunni og hefur alla tíð verið virkur myndlistarmaður. Hann hefur haldið ótal myndlistarsýningar, bæði innan lands og utan og skemmst er að minnast sýningar sem hann hélt í Frakklandi árið 2006 þar sem hann fékk mjög góða dóma.
Nánar um athöfnina í fyrramálið.
VF-mynd/elg - Verðlaunahafarnir Eiríkur Árni og Páll Ketilsson ásamt Björk Guðjónsdóttur, forseta bæjarstjórnar, og Arna Sigfússyni, bæjarstjóra.