Víkurfréttir í aldarfjórðung
Í dag, 14. ágúst, er aldarfjórðungur liðinn frá því Víkurfréttir komu fyrst út. Er blaðið meðal elstu bæjar- og héraðsfréttablaða landsins. Verður tímamótanna minnst síðar á afmælisárinu.
Það var prentsmiðjan Grágás sem hóf útgáfu Víkurfrétta í ágúst 1980 og var blaðið gefið út af prentsmiðjunni til ársloka 1982 en þá keypti nýtt hlutafélag, Víkurfréttir hf. blaðið og tók við útgáfunni í ársbyrjun 1983. Nýja félagið hóf vikulega útgáfu á blaðinu í mars sama ár en fram að því höfðu fyrri eigendur gefið blaðið út hálfsmánaðarlega með nokkrum undantekningum.
Fyrstu árin var blaðinu dreift ókeypis í verslunum og stofnunum en fljótlega var farið að dreifa blaðinu inn á öll heimili á Suðurnesjum eins og gert er í dag.
Á aldarfjórðungi hefur starfsemi Víkurfrétta aukist mikið. Auk vikulegrar útgáfu á Suðurnesjum er systurblað með sama nafni gefið út og dreift inn á heimili og í fyrirtæki í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi en sú útgáfa hófst fyrir tæpum þremur árum. Víkurfréttir halda úti fréttavefjum í tengslum við útgáfurnar en þriðji vefur fyrirtækisins, www.kylfingur.is sem er sérvefur um golfíþróttina, var stofnsettur í vor. Þá hefur verið regluleg útgáfa á tímariti Víkurfrétta, TVF, síðan 1999. Starfsmenn Víkurfrétta sinna frétta- og ljósmyndaþjónustu fyrir aðra fjölmiðla og hefur m.a. gert slíkt fyrir Íslenska útvarpfélagið sem nú heitir 365 ljósavaka-og fréttamiðlar, síðan 1993.
Hjá Víkurfréttum ehf. starfa á milli 15 og 20 starfsmenn og er fyrirtækið með skrifstofur í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Eigendur Víkurfrétta eru Páll Ketilsson og fjölskylda en Páll er jafnframt ritstjóri.