Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Víkurfréttir flugu yfir tökusvæði FOOF
Föstudagur 12. ágúst 2005 kl. 15:23

Víkurfréttir flugu yfir tökusvæði FOOF

Innrásin í Sandvík er að hefjast. Starfsmönnum kvikmyndarinnar hefur tekist vel til að láta Sandvíkina líta út eins og ströndina á Iwo Jima þar sem Bandaríkjamenn réðust til atlögu árið 1945. Ljósmyndari Víkurfrétta flaug yfir svæðið í gær tveimur tímum áður en flugbann yfir svæðinu tók gildi. Tók hann eftirfarandi myndir af skriðdrekum sem var stillt upp á ströndinni en ásamt þeim hefur hinum ýmsu flekum verið komið fyrir á sjó rétt fyrir utan Sandvíkina.

Bannið nær yfir alla Sandvík og hafa tilkynningar þess efnis verið sendar á alla aðila sem sjá um flug á Íslandi. Flugbannið er frá 12. ágúst til 9. september og miðast það við 3.7 kílómetra radíus frá miðju svæðisins. Flugmenn þurfa einnig að fljúga í 3000 fetum nálægt svæðinu. Einnig verður bann við öllu flugi ofan við Arnarfell en það er frá 24. ágúst til 29. ágúst.

Þegar flogið er yfir Sandvíkina er þó eitt sem sker sig úr en það eru búðir þeirra Hollywood-manna. Stór tjöld, gámar og töluverður fjöldi af hjólhýsum er nú á svæðinu og eru búðirnar nokkuð stórar enda þarf mikið húsarými fyrir alla þá sem koma að tökum kvikmyndarinnar í Sandvík.

Skriðdrekarnir eru vígalegir en þeir eru bæði gangfærir og geta skotið frá sér en þó er aðeins notast við púður við tökur á kvikmyndinni. Ekki voru starfsmenn kvikmyndarinnar sáttir við flug ljósmyndara Víkurfrétta í gær en þeir hringdu í flugturninn í Keflavík og báðu þá um að koma skilaboðum til ljósmyndara þar sem hann var kurteisilega beðinn um að yfirgefa svæðið.

Æfingatökur eiga að hefjast í dag en íslenskir aukaleikarar í kvikmyndinni fjölmenntu í Rammahúsið sem stendur við Reykjanesbrautina í morgun. Þar er búningaaðstaða kvikmyndarinnar og mátti sjá „íslenska hermenn“ í fullum skrúða fyrir utan húsið. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta verða hin ýmsu tæknibrelluatriði tekin þar upp en stórar og flottar leikmyndir hafa risir þar á síðastliðnum dögum.

 

 

 

 

 

 

Myndir: Loftmyndir frá svæðinu, ein sýnir skriðdrekana á ströndinni í Sandvík en hin búðir þeirra Hollywood-manna - Íslenskir hermenn eru að gera sig klára fyrir kvikmyndina en þeir voru í fullum skrúða fyrir utan Ramm húsið í dag / VF-mynd: Atli

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024