Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Víkurfréttir brutu ekki siðareglur
Fimmtudagur 3. október 2002 kl. 13:45

Víkurfréttir brutu ekki siðareglur

Víkurfréttir brutu ekki siðareglur Blaðamannafélags Íslands með birtingu fréttatilkynningar frá Sparisjóðnum í Keflavík í sumar. Í kjölfar tilkynningarinnar kærði Ragnar Sigurðsson ritstjórnir Morgunblaðsins, Víkurfrétta og Suðurnesjafrétta. Kæran barst siðanefnd með bréfi dags. 11. júlí 2002. Björn Vignir Sigurpálsson, fréttaritstjóri Morgunblaðsins sendi greinargerð vegna málsins hinn 21. ágúst og kom síðan á fund nefndarinnar 23. september. Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta gerði grein fyrir sinni hlið málsins í tölvupósti hinn 23. ágúst. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands tók málið fyrir á fundum sínum 19. ágúst og 16., 23. og 30. september.Málavextir

Í lok júní birtust í nokkrum fjölmiðlum fréttir byggðar á fréttatilkynningu Sparisjóðs Keflavíkur þar sem sagt var frá þeirri ákvörðun sparisjóðsins að kæra fyrrverandi stjórnarformann kælivélaframleiðandans Thermo Plus í Reykjanesbæ „fyrir rangar sakargiftir og tilraun til fjárkúgunar“, eins og segir í fréttatilkynningunni. Fréttin birtist í netútgáfu Víkurfrétta 24. júní, í netútgáfu Suðurnesjafrétta og Morgunblaðinu 25. júní og á mbl.is sama dag.

Fréttatilkynningin var send fjölmiðlum í kjölfar fréttar í DV þar sem sagt var frá því að Ragnar Sigurðsson hefði farið fram á það við Fjármálaeftirlitið og viðskiptaráðherra að Sparisjóður Keflavíkur yrði sviptur starfsleyfi tímabundið „á meðan opinber rannsókn á meintum veðsvikum starfsmanna Sparisjóðsins fer fram,“ eins og segir í frétt DV. Þar segir jafnframt að samkvæmt heimildum blaðsins séu í þessari og fleiri kærum á Thermo Plus og Sparisjóð Keflavíkur rakin ýmis mál sem varði meint svik varðandi fjármál fyrirtækisins, svo sem meint svik vegna viðskipta með hlutabréf félagsins, meintur þjófnaður á búnaði frá Thermo Plus og svik af margvíslegum toga.

Í fréttatilkynningu Sparisjóðs Keflavíkur segir að stjórn sparisjóðsins hafi ákveðið að kæra fyrrverandi stjórnarformann Thermo Plus til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og tilraun til fjárkúgunar. Sagt er frá því að í desember 2001 hafi sparisjóðurinn höfðað mál gegn Ragnari Sigurðssyni og fleirum vegna ábyrgðar þeirra á skuldabréfi að fjárhæð 4,5 milljónir króna. Eftir það hafi Ragnar leitast við að koma höggi á sparisjóðinn „með óréttmætum og svívirðilegum ásökunum til lögreglu og Fjármálaeftirlits um skjalafals, umboðssvik, fjársvik og veðsvik sem eiga að hafa átt sér stað innan sjóðsins í tengslum við meðferð hlutabréfa í Thermo Plus.“

Jafnframt segir í fréttatilkynningu Sparisjóðs Keflavíkur að fregnir af þessu máli hafi ítrekað verið birtar í DV eins og um væri að ræða raunverulegt og alvarlegt sakamál en ekki hugarfóstur eins manns.

Í hinum kærðu fjölmiðlum var fréttatilkynningin birt í meginatriðum eða í heild sinni og kom nafn Ragnars Sigurðssonar þar fram.

Í kærunni segir m.a.:

Þar sem þær ásakanir sem koma fram á hendur undirritaðs teljast mjög alvarlegar og að ekki var gerð nein tilraun til að ná í undirritaðan, þá getur undirritaður ekki betur séð en að ofantaldir fjölmiðlar hafi brotið gegn 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands…

Jafnframt bendir kærandi á hluta 4. greinar siðareglna þar sem segir að blaðamenn skuli hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefjist nafnbirtingar og að í frásögnum af dóms- og refsimálum skuli blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður sé talinn saklaus þar til sekt hans hafi verið sönnuð.

Kærandi skrifaði ritstjórnum Morgunblaðsins og Víkurfrétta bréf vegna birtingar fréttatilkynningarinnar þar sem hann átaldi þau vinnubrögð að kanna ekki bakgrunn fréttatilkynningarinnar og að nafngreina sig beint án þess að gera tilraun til að hafa samband við sig. Hann segir engin svör hafa borist við þessum bréfum.

Umfjöllun nefndarinnar

Fyrri hluti kærunnar snýst um það hvort nefndir fjölmiðlar hafi vandað upplýsingaöflun sína svo sem kostur er þegar ekki var haft samband við kæranda til að fá hans hlið málsins.

Hinar kærðu fréttir fjalla fyrst og fremst um þá staðreynd að Sparisjóður Keflavíkur hafi ákveðið að kæra til lögreglu sakargiftir sem bornar höfðu verið á sjóðinn með kærum til opinberra aðila og sem forsvarsmenn sjóðsins töldu rangar. Í þessum fréttum var engin tilraun gerð til að láta líta svo út sem verið væri að gera málinu í heild tæmandi skil, heldur kom þvert á móti skýrt fram að þar væri einungis verið að segja frá efni fréttatilkynningar frá Sparisjóði Keflavíkur.

Í svari Björns Vignis Sigurpálssonar, fréttaritstjóra Morgunblaðsins, til siðanefndar kom fram að blaðið teldi sig ekki hafa „tilkynningarskyldu gagnvart hinum stefnda í tilfelli sem þessu.“ Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, sagði það ekki þekkjast að fréttatilkynningar væru bornar undir aðila sem fjallað er um áður en þær séu birtar. Björn Vignir tók í sama streng og sagði fréttatilkynningar almennt birtar athugasemdalaust, ef þær væru innan velsæmismarka og í þeim væru ekki meiðyrði. Blaðið stæði svo opið fyrir andsvörum ef einhver væru.

Almennt séð virðist því sem fjölmiðlar líti ekki svo á að fréttatilkynningar kalli endilega á tæmandi umfjöllun, heldur séu þær frekar ein þeirra leiða sem fólk hefur til að koma upplýsingum á framfæri. Í framhaldinu geti þær svo kallað á frekari umfjöllun.

Þetta sjónarmið er umhugsunarefni í sjálfu sér. Þýðir það að ekki séu gerðar jafn miklar kröfur til þess að skoða sannleiksgildi fréttatilkynninga og annarra heimilda sem notaðar eru við fréttaskrif? Siðanefnd telur að fjölmiðlar ættu að hugleiða hvort svo sé.

Í því tilviki sem hér um ræðir má segja að sjónarmið mótaðilans hafi á vissan hátt komið fram í hinum kærðu fréttum, þar sem sagt var frá því í hverju kærur hans hefðu verið fólgnar. Sjónarmið hans og kæruefni höfðu einnig komið fram í fréttum DV af málefnum Thermo Plus. Auk þess var fréttaefnið að þessu sinni ákvörðun Sparisjóðs Keflavíkur að kæra vegna áður fram kominna sakargifta og því ástæðulaust að leita viðbragða við því.

Það verður því ekki séð að upplýsingaöflun og úrvinnsla hinna kærðu fjölmiðla hafi verið með þeim hætti að það teljist brot á siðareglum blaðamanna. Hins vegar vill siðanefnd benda á að það er sjálfsögð tillitssemi við þá sem fjallað er um að fjölmiðlar svari kvörtunarbréfum og bendi viðkomandi á að þeir geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri ef þeir óski.

Síðara kæruefnið vegna þessa fréttaflutnings er nafnbirtingin. Kærandi telur að þar sem um alvarlegar ásakanir hafi verið að ræða, hefði ekki átt að birta nafn sitt í fréttinni, án þess að hafa samband við sig fyrst eða kanna með öðrum hætti sannleiksgildi þeirra ásakana sem birtust í kæru sparisjóðsins.

Þeir Björn Vignir og Páll Ketilsson vísuðu báðir í svörum sínum til þess að Ragnar var áður búinn að koma sjálfur fram vegna málsins í öðrum fjölmiðli. Því hafi ekki verið ástæða til nafnleyndar.

Þá segir: Siðanefnd tekur undir þau sjónarmið. Kæra Sparisjóðs Keflavíkur var andsvar við einmitt þeim kærumálum sem sagt var frá í DV og var krafan um sviptingu starfsleyfis sparisjóðsins aðalefni fréttarinnar, en hún var undirrituð af Ragnari Sigurðssyni. Ekki verður heldur séð hvernig hefði verið hægt að halda nafni Ragnars utan við umfjöllunina án þess að valda því að þröngur hópur innan Thermo Plus hefði verið talinn tengjast fréttinni.

Úrskurður

Morgunblaðið, Víkurfréttir og Suðurnesjafréttir teljast ekki hafa brotið siðareglur.

Reykjavík, 30. september 2002


Þorsteinn Gylfason
Sigurveig Jónsdóttir
Ásgeir Þór Árnason
Hreinn Pálsson
Pétur Gunnarsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024