Víkingasafn: vonast til að framkvæmdir hefjist á árinu
Vonast er til að framkvæmdir við byggingu Víkingasafns við Fitjar hefjist á þessu ári. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar greindi frá þessu á íbúafundi í Innri Njarðvík í kvöld. Fjölmargir íbúar Innri-Njarðvíkur mættu á fundinn þar sem bæjarstóri greindi frá helstu framkvæmdum sem í gangi eru eða eru fyrirhugaðar á vegum Reykjanesbæjar.
Mikil uppbygging mun eiga sér stað á næstu tveimur árum í Innri-Njarðvík. Þar rís Akurskóli en tilboð í byggingu skólans voru opnuð í dag. Byggingafyrirtæki Hjalta Guðmundssonar í Reykjanesbæ bauð lægst í byggingu skólann eða 407 milljónir króna. Kostnaðaráætlun bæjarins hljóðaði upp á 460 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að skólinn hefji starfsemi haustið 2005.
Á fundinum tóku fjölmargir til máls og bentu á atriði sem þeim fannst vert að laga eða bæta, s.s. hraðahindranir, almenningssamgöngur og byggingu varnargarða í Innri-Njarðvík.
Myndin: Frá íbúafundi í Innri-Njarðvík í kvöld. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.