Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Víkingaheimar verði gerðir gjaldþrota -rifist um málið í bæjarstjórn
Fimmtudagur 5. janúar 2012 kl. 12:48

Víkingaheimar verði gerðir gjaldþrota -rifist um málið í bæjarstjórn


Fulltrúar Samfylkingar og Framsóknar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar lögðu fram tillögu í bæjarráði 22. des. sl. að félögin Íslendingur og Útlendingur sem standa að rekstri Víkingaheima og Íslendings verði tekin til gjaldþrotaskipta. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti hins vegar að breyta 100 millj. kr. kröfu Reykjanesbæjar á félögin í hlutafé.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ársreikningur Íslendings ehf og Útlendings ehf fyrir árið 2010 sýnir að fjárhagsstaða og rekstur félaganna beggja er með þeim hætti að ekki verður við unað. Þrátt fyrir fyrirhugaðar afskriftir skulda félaganna beggja er með öllu ófært að halda áfram rekstri þeirra í því formi sem verið hefur.
Það er ekki forsvaranlegt að Reykjanesbær haldi áfram að leggja félögunum til fjármagn en ljóst er að töluvert fé þarf til ef halda á rekstrinum áfram. Einnig þarf töluverðar endurbætur á innra starfi safnsins svo að safnið standi undir nafni. Gera má ráð fyrir að Reykjanesbær þurfi á næstu árum að leggja til allt að 100 milljónir ef endar eiga að ná saman. Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar leggur því til að rekstri félaganna verði hætt og félögin bæði tekin til gjaldþrotaskipta. Undir tillöguna skrifuðu Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson frá Samfylkingu og Kristinn Jakobsson frá Framsóknarflokknum.

Á sama fundi bókaði meirithluti Sjálfstæðisflokksins:
„Með ákvörðun meirihluta bæjarráðs er leitast við að tryggja kröfu bæjarsjóðs á hendur félaginu, rúmlega 100 milljónir króna og munu eignir samstæðu Reykjanesbæjar hækka um rúmlega 200 milljónir króna við þessa ákvörðun. Tillaga minnihlutans frá bæjarstjórnarfundi 20.des. s.l. felur það í sér að fella niður kröfur/eignir bæjarsjóðs upp á rúmlega 100 milljónir króna án frekari skoðunar sem meirihlutinn getur engan vegin fallist á. Vonir meirihlutans standa til þess að ekki þurfi að leggja félaginu til verulega fjármuni til rekstrar eftir fjárhagslega endurskipulagningu þess.“
Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson.

Málið kom til umræðu á bæjarstjórnarfundi fyrr í vikunni þar sem Friðjón Einarsson og fleiri fulltrúar Samfylkingar sögðu að meirihluti Sjálfstæðismanna væri að stunda ríkiskapitalsisma með rekstri Víkingaheima. Í bókun Samfylkingarinnar á fundinum kemur fram að bærinn ætti að losa sig undan ábyrgð á rekstri Víkingaheima og fyrirsjáanlegt væri að reksturinn væri eingöngu kostnaður fyrir bæjarfélagið. Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar sagði að Reykjanesbær hefði gert samkomulag við ríkið fyrir tíu árum síðan um rekstur og uppbyggingu Víkingaheima og samkvæmt því samkomulagi væri ríkið enn að greiða sitt framlag upp á 120 millj. kr. Því bæri bænum að standa við sitt. „Við værum að gefast upp ef við hættum og ég er ósammála því. Við erum að byggja þetta upp og þegar því starfi er lokið skal ekki standa á meirihluta bæjarstjórnar að koma rekstrinum til einkaaðila og losa þannig bæinn frá málinu,“ sagði Böðvar.

Ríkisstjórnin hélt fund í nóvember 2010 í Víkingaheimum.