Víkingaheimar opnaðir eftir helgi
Víkingaheimar sem hýsa Víkingaskipið Íslending og Smithsonian sýninguna „Víkings” verða opnaðir eftir helgi á Fitjum í Reykjanesbæ. Sem kunnugt er var Íslendingur smíðaður seint á síðustu öld en skipinu var siglt til Ameríku á landafundaárinu 2000.
Formleg opnun verður hins vegar ekki fyrr en 17. júní en þann sama dag árið 2000 lagði Íslendingur úr höfn í hina sögulegu siglingu til Ameríku.
Opnunin eftir helgi er því óformleg og í raun prófun á því sem koma skal. Að sögn aðstandenda sýningarinngar á enn eftir að hnýta örfáa lausa enda í tæknilegri útfærslu sýningarinnar en tafir hafa orðið á hluta tækjabúnaðar vegna efnahagserfiðleikanna í landinu.
Í Víkingaheimum eru meðal annars munir frá víkingasýningunni sem Smithsonian stofnunin í Washington setti upp árið 2000. Sú sýning fór víða um Bandaríkin í tilefni af afmæli landafundanna og vakti mikla athygli – rétt eins og sigling Íslendinga á sínum tíma. Víkingaheimar verða opnir alla daga vikunnar frá 11:00 til 18:00
Að sögn forsvarsmanna Víkingaheima hefur verið samið við ferðaskrifstofuna Atlantic um komu 5000 gesta í Víkingaheima fyrri hluta sumars. Sá eini samningur þýðir að gestafjöldi í maí og júní er strax kominn í áætlaðan fjölda.