Vígi sjálfstæðismanna í Garði er mjög sterkt
„Þetta er bara gaman. Þetta er alveg rosalega gaman. Árangurinn er afrakstur mikillar vinnu alls hópsins. Allur hópurinn hefur verið að síðustu vikur í mikilli vinnu og unnið þétt saman og skiptir engu máli hvort það var fyrsti maður, sá fjórtándi eða bæjarstjóraefnið okkar. Og það skilaði sér,“ segir Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokks og óháðra í Garði. D-listinn vann hreinan meirihluta í Garðinum og felldi þar með meirihluta N-listans, sem fyrir þessar kosningar hafði fjóra bæjarfulltrúa.
„Hér vildu bæjarbúar halda bæjarstjóranum. Það er ekki nokkur spurning. Það skipti miklu máli að við stilltum Ásmundi Friðrikssyni upp sem bæjarstjóraefni listans. Fólkið hafði þar skýrt val,“ segir Einar Jón.
Sjálfstæðismenn og óháðir voru ekki langt frá því að ná fimmta manninum inn en aðeins vantaði 12 atkvæði til þess að það hefði orðið.
„Vígi sjálfstæðismanna í Garði er mjög sterkt og að ná hreinum meirihluta þegar svo hart er sótt að D-listanum á landinu eru mikil tíðindi,“ segir Einar Jón Pálsson að endingu.