Viðurkenningar vegna menningar- og umhverfismála í Sandgerðisbæ
Viðurkenningar fyrir störf í menningarmálum og fyrir snyrtilegt umhverfi voru afhent á Sandgerðisdögum en sérstök hátíðardagskrá fór fram í safnaðarheimilinu í Sandgerði þar sem viðurkenningarnar voru veittar.
Óskar Fannberg Jóhannsson hlaut viðurkenningu fyrir störf tengd menningarmálum. Þórður Þorkelsson og Vilborg Knútsdóttir fengu viðurkenningu fyrir „Verðlaunagarðinn 2017“. Gunnlaugur Sveinbjörnsson og Halldóra Guðrún Jónsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi fyrirtækis.
Þetta kemur meðal annars fram í rökstuðningi fyrir störf að menningarmálum:
„Í samfélaginu okkar eru ótal aðilar sem eru vakandi og sofandi að vinna að hagsmunum samfélagsins. Þessir aðilar hafa ekki hátt og við tökum ekki alltaf eftir þeirra góða starfi. Þetta á við um bæði félög og einstaklinga.
Eitt þeirra félaga sem vinnur mikið og gott samfélagsstarf er Lionsklúbbur Sandgerðis. Auk þess að styðja við bakið á ýmsum verkefnum og aðstoða einstakinga í vanda hefur Lionsklúbburinn unnið að verndun menningararfs í Sandgerðisbæ með endurbyggingu Efra- Sandgerðis og útgáfu Lionsblaðsins.
Einn Lionsfélaganna er Óskar Fannberg Jóhannsson. Óskar er fæddur 14.maí 1955. Óskar er hæglátur húmoristi og hreykir sér ekki hátt. En hann er fylginn sér og úthaldsgóður. Óskar hefur verið lífið og sálin í árlegri útgáfu Lionsblaðsins. Aflað efnis, útvegað auglýsingar, búið undir prentun og verið með í dreifingu. Í Lionsblaðinu hefur verið leitast við að birta árlega greinar um menn og mannlíf í sveitarfélaginu og áður en varði hefur orðið til menningararfur sem verður sífellt dýrmætari.
Atvinnu- ferða- og menningarráð hefur því ákveðið að veita Óskari Fannberg Jóhannssyni viðurkenningu fyrir störf að menningarmálum í Sandgerðisbæ.“
Umsagnir fyrir snyrtilega garða, umhverfi húss og lóðar og snyrtilegt umhverfi fyrirtækis:
„Garðurinn að Holtsgötu 33 ber vott um afburða snyrtimennsku og tilkomumikið útlit. Skrúðugt plöntuval skapar áhugaverðan fjölbreytileika og ásýnd. Garðurinn ber glögg merki alúðar og ræktunarhæfni. Garðurinn og lóðin er skýrt dæmi um fjölþætta möguleika í ræktun og er ótvíræð hvatning til aukins margbreytileika í ræktun í bæjarfélaginu. Holtsgata 33 hlaut nafnbótina „verðlaunagarður 2017“ og eigendur hans eru Þórður Þorkelsson og Vilborg Knútsdóttir.
Víkurbraut 15 (Krókskot) var byggt af Berent Magnússyni, bróður Árna í Landakoti. Um er að ræða fallegt eldra hús sem er sérlega vel við haldið og snyrtilegt og er gott dæmi um hús frá fyrri hluta 20.aldar. Húsinu hefur verið breytt nokkuð frá upphafi en svipmóti haldið vel til haga sem er virðingarvert. Hús og lóð ber vott um fagmennsku og vandvirkni í alla staði sem setur sterkan brag á laglega götumyndina. Króksholt hlaut viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi húss og lóðar og eigendur hússins eru Gunnlaugur Sveinbjörnsson og Halldóra Guðrún Jónsdóttir.
Staftré ehf stendur við Strandgötu 27. Um er að ræða vel við haldið hús þar sem snyrtimennska er allsráðandi, Lóðin er látlaus og ver augljós merki góðrar umhirðu. Þrátt fyrir umfangsmikla stafsemi fyrirtækisins hefur hús og lóð skýrt yfirbragð hirðusemi sem gerir það að verkum að lítið fer fyrir starfseminni í nánasta umhverfi. Framkvæmdastjóri Staftrés er Páll Gíslason.“
Víkurbraut 15
Staftré ehf