Viðurkenning fyrir rannsóknir á psoriasismeðferð Bláa Lónsins
Jenna Huld Eysteinsdóttir, læknir og doktorsnemi við HÍ, hlaut viðurkenningu úr Þorkelssjóði fyrir rannsóknir á psoriasismeðferð Bláa Lónsins. Þetta var í annað sinn sem viðurkenningar úr sjóðnum eru veittar. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni námsmanna á sviði lyfja- og eiturefnasviðs í víðustu merkingu t.d. grunn- eða klínískar rannsóknir sem geta aukið skilning á lyfjaverkun, aukaverkunum, nýjum lyfjamörkum eða lyfjaþróun.
Jenna Huld lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Læknadeild HÍ árið 2005 og hóf doktorsnám við sömu deild árið 2008. Í doktorsverkefni sínu ber Jenna Huld saman psoriasismeðferð í Bláa Lóninu við hefðbundna UVB meðferð. Í niðurstöðu valnefndar segir að sérstaka athygli hafi vakið að svo ungur vísindamaður væri í leiðandi hlutverki í stórri klínískri meðferðarrannsókn þar sem saman færi vönduð klínísk aðferðafræði ásamt áhugaverðum frumu- og ónæmisfræðilegum rannsóknum til að leitast við að skilja verkunarhátt tilraunameðferðarinnar. Rannsókn Jennu Huldar og samstarfsmanna hennar leiðir stoðum undir fyrri vísbendingar um hugsanlegan lækningamátt efna úr jarðsjó Bláa Lónsins og benda til beinna ónæmisfræðilegrar bælingar hjá sjúklingum. Viðurkenningin er í formi styrks að upphæð kr. 150.000,- sem skal nýta til að kynna vísindaverkefnið á erlendum ráðstefnum.
Jenna Huld sagði að viðurkenningin væri afar hvetjandi. „Öll sú uppbygging við psoriasismeðferðir sem hefur átt sér hjá Bláa Lóninu byggist á vísindalegum rannsóknum sem gerðar voru fyrir um 15 árum síðan. Þær leiddu í ljós lækningarmátt jarðsjávarins hjá psoriasissjúklingum með því að skoða klínísk áhrif meðferðarinnar á sjúklingana. Miklar framfarir hafa orðið síðan þá í rannsóknum á meinmyndun psoriasis og nýjar meðferðir hafa bæst við. Það er því mikilvægt að gera nýjar rannsóknir á áhrifum böðunar í lóninu, bæði til að staðfesta fyrri rannsóknir um lækningarmátt Bláa Lónsins og til að skoða fleiri þætti sem hafa ekki verið rannsakaðir áður“ sagði Jenna Huld.
Jenna Huld segir klínískar og ónæmisfræðilegar niðurstöður lofa góðu. „Ég hef því góðar væntingar til niðurstaðna þessarar rannsóknar. Psoriasis hrjáir um það bil 2% fólks í hinum vestræna heimi og má því ætla að það séu þó nokkuð margir Íslendingar sem kljást við þennan sjúkdóm. Ég vona að rannsóknin leiði til bættrar þjónustu við psoriasissjúklinga, ásamt því að bæta við þá þekkingu sem fyrir er varðandi meinmyndun sjúkdómsins og orsök hans. Kannski komumst við svo aðeins nær því hvað það er í jarðsjó Bláa Lónsins sem hefur þennan lækningarmátt, það er aldrei að vita,“
Jenna Huld sagði jafnframt að það væri afar ánægjulegt að vinna rannsóknina sem samstarfsverkefni Landspítalans og Bláa Lónsins þar sem bæði fyrirtækin leggi mikla alúð við metnaðarfullt rannsóknastarf. Aðalleiðbeinandi Jennu Huldar við rannsóknina er Jón Hjaltalín Ólafsson og meðleiðbeinendur eru Bárður Sigurgeirsson, Bjarni Agnarsson og Björn Rúnar Lúðvíksson. Rannsóknin er styrkt af Tækniþróunarsjóði Íslands og Vísindasjóði Landspítalans.