Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Viðurkenning aðeins til eins árs
Þriðjudagur 4. september 2012 kl. 08:20

Viðurkenning aðeins til eins árs

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Fisktækniskóla Íslands viðurkenningu sem skóli á framhaldsskólastigi til 31. júlí 2013.

Bæjarráð Grindavíkur fagnar því að skólinn hafi hlotið viðurkenninguna og vonar að hún sé fyrsta formlega skrefið á þeirri leið að framhaldsnám verði í boði í Grindavík, en lýsir jafnframt vonbrigðum með að viðurkenningin sé bundin við eitt skólaár.

Bæjarráð tekur undir með stjórn Fisktækniskólans að það sé afar brýnt að koma skólanum á fastar fjárveitingar byggðar á nemendaígildum eins og á við um aðra framhaldsskóla. Nauðsynlegt er að tryggja rekstraröryggi skólans svo hann geti séð lengra fram í tímann en eitt ár í senn og geti markað sér framtíðarstefnu og laðað að sér fleiri nemendur.

Sjávarútvegur er ein meginstoð íslensks samfélags og hlýtur að vera metnaðarmál fyrir fiskveiðiþjóð að menntun í veiðum og vinnslu sé í boði. Án menntunar og framþróunar er hætt við að Íslendingar missi samkeppnisforskot sitt í sjávarútvegi.

Tekjur ríkisins af sjávarútvegi eru að hækka talsvert með hækkun veiðigjalda. Sveitarfélög fá ekki hlutdeild í þeim tekjum, nema að mjög takmörkuðu leyti. Veiðigjaldið á meðal annars að renna í menntun og rannsóknir í sjávarútvegi og styðja við greinina. Að mati bæjarráðs Grindavíkur liggur beint við að veita hluta þess fjármagns til að byggja upp Fisktækniskóla Íslands og efla þannig menntun í grunngreinum íslensks sjávarútvegs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024