Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Viðræður við kröfuhafa hafnar að nýju
Fimmtudagur 26. maí 2016 kl. 15:32

Viðræður við kröfuhafa hafnar að nýju

Bréf frá nokkrum kröfuhöfum Reykjaneshafnar, þess efnis að vilji sé til að halda áfram viðræðum um skuldaniðurfellingu, var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun. Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, eru þessir kröfuhafar lífeyrissjóðir og aðrir sem ekki hafði náðst samkomulag við um niðurfellingu skulda. „Í bréfinu kom fram að vilji væri til að halda viðræðum áfram. Okkur finnst okkur bera skylda til þess og erum full áhuga,“ segir Kjartan. Fulltrúar Reykjanesbæjar áttu fund með fulltrúum kröfuhafa í gær og annar fundur var haldinn í dag.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafði gefið bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ frest þar til í gær til að taka afstöðu til þess að nefndin leggi til við innanríkisráðherra að skipuð verði fjárhaldsstjórn yfir bæjarfélaginu. Bæjarstjórn óskaði eftir framlengdum fresti til þriðjudagsins 7. júní næstkomandi til að taka afstöðu til tillögunnar og var fresturinn veittur. Kjartan segir afstöðu bæjarstjórnar þá ráðast af stöðunni eins og hún verður 6. júní. „Náist samkomulag um niðurfellingu skulda leggst bæjarstjórn gegn því að skipuð verði fjárhaldsstjórn. Ef við sjáum ekki fram á að samkomulag náist, þá er það vilji meirihluta bæjarstjórnar að skipuð verði fjárhaldsstjórn.“ Kjartan segir ljóst að ekki verði um frekari fresti að ræða. „Við höfum þessa viku og næstu til að komast að niðurstöðu og nýtum þann tíma mjög vel.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024