Viðræður um fjármögnun stálpípuverksmiðju í gangi
Vonast er til að niðurstaða fáist í þessum mánuði varðandi þátttöku íslenskra lánastofnana í fjármögnun stálpípuverksmiðju í Helguvík. Fulltrúar International Pipe and Tube eru þessa dagana í viðræðum við lánastofnanir á Íslandi, en gert er ráð fyrir að fjármögnun verksmiðjunnar verði samblanda af innlendu og erlendu lánsfé. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að bygging verksmiðjunnar kosti á bilinu 4 til 5 milljarða króna.
Gert er ráð fyrir að lóð fyrirtækisins í Helguvík verði tilbúin eftir mánuð, en kostnaður Reykjanesbæjar vegna lóðarinnar er á bilinu 300 til 400 milljónir króna. Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi hjá Reykjanesbæ um að viðræður um fjármögnun stálpípuverksmiðjunnar gangi eftir þar sem bærinn hefur lagt út í mikinn kostnað vegna fyrirhugaðrar lóðar í Helguvík.
Tölvumynd af svæðinu í Helguvík.