Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Viðkvæmar trúnaðarupplýsingar leka frá óttaslegnum starfsmönnum Varnarliðsins
Þriðjudagur 28. október 2003 kl. 12:02

Viðkvæmar trúnaðarupplýsingar leka frá óttaslegnum starfsmönnum Varnarliðsins

Liðsmenn flotastöðvar Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli fara af landi brott innan þriggja ára samkvæmt heimildum Víkurfrétta af Keflavíkurflugvelli. Frá því fréttir birtust um það í gær að 90 manns yrði sagt upp hjá Varnarliðinu hefur gætt mikils titrings hjá íslenskum starfsmönnum Varnarliðsins. Aðilar innan Varnarliðsins sem Víkurfréttir hafa rætt við í gærkvöldi og í morgun hafa greint frá fyrirhuguðum niðurskurði hjá Varnarliðinu, þar sem hugmyndir eru uppi um að liðsmenn flotastöðvarinnar hverfi af landi brott eftir þrjú ár. Eingöngu er gert ráð fyrir að flugsveitir Varnarliðsins verði hér á landi með lágmarksstarfsemi. Þeir heimildarmenn sem Víkurfréttir hafa rætt við segja að starfsmenn séu óttaslegnir og að viðkvæmar trúnaðarupplýsingar séu farnar að leka út meðal starfsmanna. Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er verið að vinna að margvíslegum áætlunum innan Varnarliðsins þar sem gert er ráð fyrir brotthvarfi hinna ýmsu deilda. Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins vildi í samtali við Víkurfréttir ekkert tjá sig um málið.

 

VF-ljósmynd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024