Viðgerðum á Reykjanes-brautinni að ljúka
Verið er að leggja lokahönd á malbikun Reykjanesbrautarinnar, en miklar lagfæringar hafa verið gerðar á henni í sumar og hefur umferð á leið vestur verið beint um Vatnsleysustrandarveg. Nú er einungis eftir að klæða axlir brautarinnar, en það er gert til að hægfara umferð eigi kost á að víkja fyrir hraðskreiðari umferð. Að sögn Sigursteins Hjartarsonar, hjá vegagerðinni, eru í það mesta tvær vikur í verklok.