Viðgerð lokið og vélin á förum
Rússneska Sukhoi SuperJet-100 þotan sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli að morgni 21. júlí sl. er að fara af landi brott. Vélin hóf sig á loft frá Keflavíkurflugvelli í gær í prufuflug eftir umfangsmiklar viðgerðir síðustu vikur og mánuði. Áætlað er að vélin fari til Rússlands á morgun.
Flugvélin brotlenti eftir að hafa verið í æfingaflugi. Magalenda þurfti vélinni og tókst lendingin vel miðað við aðstæður en flugvélin rann til á brautinni. Fimm manns voru um borð og sluppu allir við meiðsl utan eins sem meiddist minni háttar og er talinn ökklabrotinn. Áhöfnin er öll rússnesk.
Vélin var tekin úr flugskýli á Þorláksmessu og mótorar vélarinnar prófaðir. Í gær var svo farið í loftið. Mikið kapp var lagt á að koma vélinni í loftið fyrir 28. desember en með því að koma vélinni í loftið fyrir þá dagsetningu fæst brotlendingin á Keflavíkurflugvelli í sumar skráð sem flugóhapp en ekki flugslys sem skiptir framleiðanda vélarinnar máli í markaðssetningu á þessari nýju flugvél.
Meðfylgjandi myndir tók Emil Georgsson á Keflavíkurflugvelli í gær þegar vélin fór í sitt fyrsta flug eftir viðgerðir. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan er kviður vélarinnar talsvert bættur en skipta þurfti um hluta af kvið vélarinnar og setja á hana nýja mótora en þeir sem fyrir voru eyðilögðust í brotlendingunni í sumar.
Frétt um brotlendinguna.
Frétt um björgun vélarinnar.