Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Video: Miklar endurbætur á allri aðstöðu Bláa lónsins
Sunnudagur 11. febrúar 2007 kl. 17:10

Video: Miklar endurbætur á allri aðstöðu Bláa lónsins

Framkvæmdir við stækkun á húsnæði Bláa lónsins eru vel á veg komnar. Framkvæmdum mun ljúka um mitt sumar 2007 en baðálman verður opnuð fyrr, eða í maí. Framkvæmdirnar við Bláa lónið miða að því að stækka og endurhanna aðstöðu Bláa lónsins. Gólfflötur í húsnæði verður tvöfaldaður, hann er í dag um nærri 3000 fermetrum en verður yfir 6000 fermetrar þegar framkvæmdum er lokið.

Fyrst má nefna breytingar í baðálmu. Þar eru klefar endurhannaðir. Baðgestir fá betra pláss, auk þess sem böðunum er skipt niður í fleiri og minni einingar. Aðstaðan verður öll hlýlegri og aðstaða til snyrtingar til fyrirmyndar, hvort sem um er að ræða rakstur í karlaklefum eða fyrir hárþurrkun og förðun í kvennaklefum, svo eitthvað sé nefnt.

Þá verða teknir í notkun sjö VIP eða einka-klefar, þar sem einn til tveir geta fengið lokað rými í algjöru næði. Einnig flæðir lónið inn á lokað VIP svæði. Þetta er til að mæta kröfum einstaklinga sem vilja njóta Bláa lónsins í næði og fólks sem tilbúið er að borga fyrir slík þægindi. Að sögn Magneu Guðmundsdóttir, kynningarstjóra Bláa lónsins, er markaður fyrir þessa þjónustu.

Þegar komið er inn í húsnæði Bláa lónsins verða gestir strax varir við að gestamóttaka hefur verið stækkuð. Þá mun veitingasvæðið taka miklum breytingum. Opnuð verða svæði þar sem ekki er þjónað til borðs og þá mun opna nýtt A la Carte-veitingahús sem meðal annars er sprengt inn í hraunið við Bláa lónið. Þar er glæsilegt útsýni yfir Bláa lónið, sérstök koníaksstofa verður á 2. hæð og ofan af þaki byggingarinnar verður útsýnispallur með glæsilegu útsýni yfir allt svæðið. Nýr veislusalur mun auka enn tækifæri Bláa lónsins til veislu- og fundarhalda. Þá verða opnuð bílastæði á bakvið nýja veitingasalinn en gengið er inn í nýja veitingasalinn um glæsilega hraungjá.

Verslun Bláa lónsins mun stækka umtalsvert. Þar verða áfram boðnar hinar vinsælu Bláa lóns vörur í glæsilegu umhverfi. Hátt verður til lofts í versluninni og yfir verslunina mun liggja mikil brú yfir í nýja skrifstofuálmu Bláa lónsins. Aðstaða starfsmanna mun einnig verða stórbætt en í dag hafa 160 starfsmenn Bláa lónsins u.þ.b. 20 fermetra eldhúsaðstöðu.

Framkvæmdir við uppbyggingu Bláa lónsins hafa gengið ótrúlega vel að sögn Magneu. Lítil röskun hefur orðið á starfseminni. Þá hefur verið lögð áhersla á það að háværar framkvæmdir eigi sér stað utan opnunartíma. Þá hafa gestir sýnt framkvæmdunum skilning, enda fer það ekki framhjá fólki að það á sér stað mikil uppbygging á staðnum.

Magnea segir að það sé ekki markmið með stækkuninni að auka gestafjölda Blaá lónsins, hedur að auka upplifun gestanna. Það verði von Bláa lónsins að fólk fái notið þess besta sem Bláa lónið býður uppá þegar mikið endurbætt aðstaða Bláa lónsins opnar í sumar.

Kostnaður við breytingarnar og stækkunina nemur um 800 milljónum króna.

 

Sjá myndband frá stækkun Bláa lónsins í Vefsjónvarpi Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024