Video: Líf í Útskálasíkinu
Þyrla Landhelgisgæzlunnar, TF-LÍF, vakti talsverða athygli í Garðinum í gærdag. Áhöfn þyrlunnar aðstoðaði við að koma byggingarefni út í Útskálasíkið, eins og smá má í meðfylgjandi myndbandi, en hólminn í síkinu hefur sokkið í áranna rás. Fuglar hafa oft hreiðrað um sig í hólmanum en nú var hann orðinn lítið annað en fáeinir steinar sem stóðu uppúr miðju síkinu.
Vilhelm Guðmundsson í Garði er sérstakur áhugamaður um hólmann og hefur haldið honum við í áratugi. Hér á árum áður var viðhaldið hins vegar mun auðveldara. Þá botnfraus síkið í vetrarfrostinu og þá var farið út á ísinn á vörubifreið með byggingarefni í hólmann. Hún er vatnið í síkinu svo salt að það nær ekki að frjósa almennilega. Það var því leitað til Landhelgisgæslunnar um að flytja grjót í hólmann næst þegar þyrfti að taka æfingar í svona flutningum á þyrlu gæslunnar.
Þyrlan kom í Garðinn í dag á fjórða tímanum og verkefnið, sem hafði verið vandlega undirbúið, tók um klukkustund. Grjót var flutt í fiskikörum hangandi neðan í þyrlunni. Framkvæmdin tókst vel, þó svo bras hafi fylgt því að koma fyrsta karinu á réttan stað, því síkið rauk upp undir þyrlunni og vatnið varð sem ólgandi sjór. Menn voru hins vegar fljótir að koma á góðu verkferli og síðan gekk framkvæmdin eins og í sögu.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, segir að næsta sumar verði hólminn mótaður enn frekar og sett á hann torf. Síðar í vetur á að reyna að koma meira efni í hólmann með því að draga kör eftir ís, ef einhver verður.
Það var Hilmar Bragi Bárðarson sem tók saman meðfylgjandi myndband og ræddi við bæjarstjóra.