Video: Hvalreki við Reykjanesbæ
Vegfarendur á Ægisgötu í Reykjanesbæ rak í rogastans í morgun þegar þeir gengu fram á 6 metra langt hræ af hrefnutarfi í fjöruborðinu neðan við gömlu sundhöllina. Megn lýsislykt bar þess vitni að dýrið hafi flotið allengi dautt í sænum áður en það rak að landi.
Mikill öldugangur er nú við sjávarsíðuna og erfitt er að nálgast dýrið. Það er, eins og fyrr sagði, um 6 metra langt og nær óskaddað og í heilu lagi. Bergur Sigurðsson starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sagði í samtali við Víkurfréttir að nú yrði beðið eftir því að sjógangurinn minnkaði en þá munu menn frá Hafrannsóknarstofnun ákveða hvort tekin verða lífssýni úr dýrinu. Að því loknu kemur það í hlut Náttúrufræðistofnunar að taka ákvörðun um það hvort og hvernig dýrinu verði fargað.
Þeir sem Víkurfréttir hafa rætt við segja að slíkur atburður sé fátíður á þessu svæði sem vakti þó mikla athygli ferðamanna sem áttu þar leið um. Vegna mikils sjógangs lögðu hvalaskoðunarskip ekki í ferðir frá Reykjanesi í dag og létu ferðamennirnir sér því nægja að skoða hrefnuna þó svo að þeir hafi eflaust búist við því að sjá líflegra dýr í hvalaskoðun.
VF-myndir/AMG
Video: Hvalurinn í flæðarmálinu í dag.