Video: Hjólað til góðs - Lokaundirbúningur
Fulltrúar slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja og Lögreglunnar í Keflavík lögðu af stað í æfingaferð fyrir átakið Hjólað til góðs í dag, en þá var hjólað frá Sparisjóðnum í Keflavík og Garður-Sandgerði hringurinn tekinn.
Með þeim í för á þessari æfingaferð voru ýmsir aðilar sem vildu sýna stuðning sinn í verki auk þess að fá skemmtilega og góða hreyfingu.
Þeir Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri BS, Jóhannes A. Kristbjörnsson, rannsóknarlögreglumaður, og Júlíus Júlíusson, slökkviliðsmaður, munu hjóla hringinn í kringum landið á 10 dögum eða um 150 til 200 km á dag. Þeir munu leggja af stað árla í fyrramálið.
Verkefnið er til styrktar Umhyggju, regnhlífarsamtaka foreldrafélaga langveikra barna og er unnið í nánu samstarfi við Sparisjóðinn í Keflavík – á Suðurnesjum, slökkviliðin í landinu og Víkurfréttir.
Taktu þátt á vf.is!
Dagleg umfjöllun verður á vf.is frá „hjólaköppunum“ og er áætlað að ferðin taki 10 daga. Lagt verður af stað Hvítasunnudag 4. júní og farin suðurleið um Hellisheiði. Áætluð heimkoma úr hringveginum er miðvikudaginn 14. júní.
Markmið styrktarsjóðs Umhyggju er:
• Að bæta umönnun og aðbúnað langveikra barna, bæði innan sjúkrahúsanna og úti í samfélaginu.
• Að tryggja að félagsleg réttindi og mannréttindi langveikra barna séu virt með hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
• Að upplýsa stjórnvöld, skóla og almenning um hina ýmsu sjúkdóma sem hrjá langveik börn.
• Að veita foreldrafélögunum stuðning í störfum þeirra
• Að styrkja foreldra sem orðið hafa fyrir verulegum fjárhagslegum erfiðleikum sem rekja má til veikinda barnsins.
Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur við Sparisjóðinn í Keflavík. Númer hans er 1109-05-411115 og kennitalan er 610269-3389.