Video: Fálki með fjögur sprungin dekk
Fjögur dekk sprungu á Falcon 2000 þotu þegar hún snérist í hálku á norður/suður-flugbraut Keflavíkurflugvallar nú eftir hádegið. Vélin hafði komið inn til lendingar og síðan snérist hún á hálli flugbrautinni og staðnæmdist loks úti á brautarkanti. Þar stóð þotan ennþá nú rétt áðan enda höfðu hjólastellin læst sér og vandkvæðum bundið að koma þotunni í burtu.
Veður og hitastig eru nú þannig á Keflavíkurflugvelli að starfsmenn Keflavíkurflugvallar eiga fullt í fangi með að halda brautarskilyrðum þannig að þau séu örugg. Rigningarúði frýs um leið og hann snertir flug- og akbrautir og bremsuskilyrði afleit.
Flugvallarstarfsmenn voru þó fljótir að opna aðra flugbraut eftir að norður/suður-brautin lokaðist vegna flugóhappsins. Á stundarfjórðungi tókst að gera austur/vestur-brautina lendingarhæfa með viðráðanlegum bremsuskilyrðum.
Meðfylgjandi myndband var tekið á vettvangi flugóhappsins í dag af kvikmyndatökumanni Víkurfrétta.