Video: Dalshverfi opnað fyrir lóðahöfum og verktökum
Fyrri áfangi Dalshverfis var opnaður fyrir lóðahafa og verktaka sl. miðvikudag. Þar er gert ráð fyrir um 250 íbúðum.
Lóðahafar og verktakar óku þá í gegnum hlið inn í hverfið þar sem þau fengu afhentar lóðirnar en í hverfinu er þegar búið að malbika götur og ganga frá öllum lögnum. Að athöfn lokinni buðu Íslenskir aðalverktakar þátttakendum í léttar veitingar í Go-kart húsinu.
Þetta er í fyrsta sinn í Reykjanesbæ sem lóðir eru afhentar í fullkláru hverfi þess er getið á heimsaíðu Reykjanesbæjar að lóðarhafar geta notast við ljósleiðaratengingu í vinnuskúrnum hjá sér á meðan á byggingu stendur.
Skipulagsáætlun unnu Kanon arkitektar fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjanesbæjar í samræmi við rammaskipulag. Umhverfi svæðisins einkennist af nálægð við strandlengjuna og Reykjanesbraut. Landið liggur í u.þ.b. 6 – 22m yfir sjávarmáli. Skipulagssvæðið afmarkast til norðurs af sjó, til vesturs af byggð fyrsta áfanga Tjarnahverfis, sem nú er í uppbyggingu, til suðurs af nýrri framlengdri Stapabraut meðfram Reykjanesbraut og til austurs. Heildarstærð deiliskipulagssvæðisins er 42,8 ha.
Framtíðaraðkoma að hverfinu frá Reykjanesbraut verður um ný mislæg gagnamót sem liggja munu að nýrri tengibraut meðfram Reykjanesbraut og Stapabraut. Innri aðkoma frá Tjarnahverfi/Innri Njarðvík verður um Tjarnabraut sem tengist Dalsbraut í Dalshverfi.Við Dalsbraut verður staðsettur leikskóli og húsnæði fyrir hverfistengda þjónustu, ásamt íbúðarhúsnæði.
Áhersla er lögð á líflegt og fallegt umhverfi lífæðar með margbreytilegu göturými og notkun trjágróðurs. Þar verður stutt í hverfisþjónustu og leikskóla og áhersla lögð á skemmtilegar og öruggar göngu- og skólaleiðir og hóflegan hraða bílaumferðar eftir lífæð.
Í norðurjaðri byggðar verður áhersla lögð á útsýni til sjávar, en í syðri hluta er landslag Leirdals undirstrikað með skjólgóðri byggð sem liggur vel að sólaráttum. Nyrsti hluti skipulagssvæðisins að sjó er opið náttúrusvæði sem nýtist vel sem útivistarsvæði. Þar liggur gömul þjóðleið sem ásamt öðrum fornleifum á svæðinu eykur útivistargildi þess.
Heimild: www.reykjanebaer.is