Video: Bruni hjá slökkviliðinu
Eldur kom upp í æfingaaðstöðu slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja við Hafnaveg í Reykjanesbæ skömmu fyrir hádegi. Eldurinn logaði í þaki reykköfunaraðstöðu slökkviliðsins og voru eldtungurnar að brjóta sér leið út úr húsinu þegar slökkviliðið kom að.
Æfingar hafa staðið yfir í reykköfunaraðstöðunni alla síðustu viku og einnig í morgun en æfingum lauk á ellefta tímanum. Telja menn að þakið hafi bæði verið orið heitt og þurrt eftir miklar æfingar síðustu daga og því hafi glóð orðið að báli.
Í reykköfunarhúsinu eru kveiktir eldar í sérstöku eldstæði og húsið látið fyllast af reyk og slökkviliðsmenn fá síðan það verkefni að fara í gegnum þrautir að eldinum til að slökkva hann. Í morgun töldu menn sig hafa farið frá húsinu án þess að í því leyndis glóð en þegar fór að rjúka úr húsinu skömmu fyrir hádegi var ljóst að ekki var allt með felldu.
Meðfylgjandi myndband var tekið upp þegar slökkvistarfið stóð yfir í hádeginu.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson