Video: Björgunarsveitir hafa í nógu að snúast á Suðurnesjum
Nú eru 53 björgunarsveitarmenn að störfum á Suðurnesjum, samkvæmt upplýsingum úr aðgerðagrunni björgunarsveita. Þeir eru frá fimm björgunarsveitum á Suðurnesjum og starfa í tólf hópum. Þeir hafa sinnt tugum útkalla í allt kvöld. Til marks um það hafa björgunarsveitarmenn í Reykjanesbæ farið í 25 útköll í kvöld.
Talsverður viðbúnaður var við Pósthússtræti 1 í kvöld en klæðning á þaki hússins er farina ð fjúka. Þá losnaði 400 kg. loftræstibúnaður á þakinu á 7. hæð.
Björgunarsveitarmenn fóru upp á þakið og festu loftræstibúnaðinn. Aðstæður á þakinu voru hættulegar og því fóru björgunarmenn strax niður af þakinu aftur, enda vindar sterkir á þaki 7. hæðar á stórhýsi.
Björgunarsveitarmenn í Skyggni í Vogum eru nú á Vatnsleysuströnd að hefta fok. Sama má segja um félaga í Þorbirni í Grindavík.
Hjólhýsi fauk um koll við bílaleigu í Reykjanesbæ og víða hafa girðingar og þakkantar látið öllum illum látum.
Björgunarsveitarmenn í Sigurvon í Sandgerði eru að tryggja landfestar í Sandgerðishöfn og sjór komst í bát í smábátahöfninni í Gróf í Keflavík. Þar var þó lítil hætta á ferðum.
Nýjustu fréttir eru þær að tilkynnt var um laust þakjárn við Nettó í Grindavík.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Reykjanesbæ nú áðan.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson