Viðbygging við sérdeildina Ösp í Njarðvík
Mun breyta miklu í starfsemi skólans
Fyrir skömmu hófust framkvæmdir við nýja viðbyggingu við sérdeildina Ösp við Njarðvíkurskóla. Viðbyggingin er um 282m2 sem mun breyta miklu í starfsemi deildarinnar. Einnig verða gerðar endurbætur að innan á núverandi byggingu sem er 336 m² að stærð. Stefnt er á að viðbyggingin klár eigi síðar en 1. október 2019 að því er fram kemur á heimasíðu skólans.
Sérdeildin Ösp var stofnuð árið 2002 þegar skólaúrræði vantaði fyrir nemendur sem gátu ekki nýtt sér almenna bekkjarkennslu. Deildin er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á slíku skólaúrræði að halda.
Allir nemendur Asparinnar tilheyra sínum umsjónarbekk í Njarðvíkurskóla og vinna starfsmenn að því að hafa velferð nemenda í fyrirrúmi í skipulagningu á náminu þeirra. Í Öspinni er unnið eftir einstaklingsáætlunum og er meðal annars lögð áhersla á tjáningu, lestur, stærðfræði, skynnám, félagsfærni og athafnir daglegs lífs. Nemendur Asparinnar sækja sérgreinatíma og aðra kennslustundir með sínum umsjónarbekk í Njarðvíkurskóla eins og kostur er á. Þegar skóla lýkur er boðið upp á frístundarúræði fyrir nemendur Asparinnar.
Deildarstjóri er Kristín Blöndal og auk hennar starfa við deildina grunnskólakennarar, þroskaþjálfar, félagsliðar og stuðningsfulltrúa.