Viðbygging við lögreglustöðina vígð
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra vígði í dag nýja viðbyggingu við lögreglustöð lögreglunnar í Keflavík. Viðbyggingin er um 165 fermetrar að stærð, en í nýju byggingunni er aðstaða til að geyma lögreglubíla inni, ný kaffistofa og bætt salernisaðstaða. Kostnaður við bygginguna var um 18 milljónir króna, en Íslenskir Aðalverktakar sáu um framkvæmdir. Jón Eysteinsson sýslumaður sagði við þetta tilefni að hann væri mjög ánægður með nýju aðstöðuna og fyrir hönd sýslumannsembættisins gaf hann dómsmálaráðherra nýja geisladiskinn með Hljómum. Dómsmálaráðherra vígði nýju aðstöðuna með því að opna hurðir bifreiðageymslunnar og ók lögreglubíll í gegnum geymsluna.
VF-ljósmynd/JKK: Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra hleypir lögreglubílnum í gegnum nýja húsnæðið.