Viðbygging við Holtaskóla tekin í notkun haustið 2005
Viðbygging við Holtaskóla verður tekin í notkun haustið 2005 og 50 metra sundlaug í sundmiðstöðinni ásamt útigarði verður tekin í notkun haustið 2006. Þetta kom fram á íbúafundi með bæjarstjóra sem haldin var í Holtaskóla í gærkvöldi fyrir íbúa í Reykjanesbæ sunnan Aðalgötu, en um eitthundrað manns sóttu fundinn.
Á fundinum skýrði bæjarstjóri helstu framkvæmdir sunnan Aðalgötu og var viðgerð gangstétta og lagning nýrra áberandi í framkvæmdum í hverfinu, auk fjölda annarra smáverkefna.
Árni var spurður hvað gera ætti við Vatnstankinn við Vatnsholt og sagði hann að sótt hefði verið um hjá bæjarráði að byggt yrði einbýlishús í tanknum. Sagði bæjarstjóri að þeirri umsókn hefði verið hafnað. Tankurinn er ekki notaður og kallaði bæjarstjóri eftir hugmyndum um hvað gera ætti við tankinn.
Atvinnurekendur sem geyma drasl og dót utan við fyrirtæki sín voru gagnrýndir á fundinum og var bæjarstjóri spurður hvort ekki væri hægt að skikka atvinnurekendur til að fjarlægja drasl af lóðum sínum. Sagði Árni að reynt væri að vinna að slíkum málum í sátt og að skipulega hafi verið unnið að því að ræða við slíka aðila.
Mikið var rætt um hraðahindranir á fundinum og upplýsti bæjarstjóri að 102 hraðahindranir væru í Reykjanesbæ. Voru skiptar skoðanir meðal fundarmanna um hvort fjölga ætti hraðahindrunum eða fækka þeim.
Var þetta fjórði íbúafundur bæjarstjóra en síðasti fundurinn verður haldinn í Heiðarskóla í annað kvöld fyrir íbúa norðan Aðalgötu.
Myndin: Frá íbúafundinum í gærkvöldi. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.