Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Viðburða- og verkefnastjórnun tekin með trompi hjá Keili
Fimmtudagur 20. janúar 2011 kl. 09:28

Viðburða- og verkefnastjórnun tekin með trompi hjá Keili

Keilir hefur sett saman þriggja anna námslínu í viðburða- og verkefnastjórnun sem er breyting frá því frumkvöðlanámi sem Keilir hefur verið með. María Rut Reynisdóttir er verkefnastjóri námsins. „Þetta er augljóslega nám fyrir þá sem þora að fara aðrar leiðir en ég vil hvetja alla þá sem fá smá fiðring í magann við að lesa þetta til að sækja um,“ segir María.



Í náminu verða kenndir kúrsar eins og markaðsfræði, samningatækni, tímastjórnun, almannatengsl, samskipti, markmiðasetning, verkefnastjórnun, viðburðastjórnun, fjármál og annað í grunninn. Stór hluti af einingunum gengur síðan út á raunverkefni í samvinnu við fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir og samtök. Nemendur fá þá ýmis verkefni að leysa eins og að búa til viðburð, þróa hugmyndir og stýra markaðsherferðum og þurfa svo að kynna niðurstöður fyrir forsvarsmönnum og kennurum. Námið er blanda af fjarnámi og staðarnámi og hentar með vinnu. Hægt er að sækja um inngöngu á vef námsins Tromp.is en umsóknarfrestur rennur út þann 31. janúar nk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri námsins, segir að áætlað sé að taka inn 25 – 35 nemendur til að byrja með. „Okkar markmið er að búa til þéttan og skemmtilegan hóp framúrskarandi nemenda sem munu vinna náið saman næstu mánuðina og ég get lofað því að þetta verður eitt stórt ævintýri fyrir þá sem hefja þetta nám. Staðarloturnar sem munu fara fram aðra hverja helgi frá fimmtudegi til laugardags verða einstaklega skemmtilegar – þær verða eiginlega einn stór viðburður með óvæntum uppákomum, fyrirlestrum, verkefnavinnu, markmiðasetningu og skemmtun“.



María valdi sjálf að fara óhefðbundna leið í að sækja sér menntun. Eftir að útskrifast með BA gráðu í stjórnmálafræði fór hún í þriggja ára verkefna- og viðburðarstjórnunarnám í danska skólanum KaosPilot. „Það nám veitti mér enga gráðu eða einingar ofan á BA námið mitt hér heima en mér var sama um það – ég mat það svo að praktíkin og tengslanetið sem ég fékk með náminu væri verðmætara og mig langaði að læra í skemmtilegu umhverfi þar sem hefðbundnum kennsluaðferðum væri aðeins ögrað. Því er ekki að neita að Trompið er innblásið af þessu námi. Það er löngu kominn tími til að búa til virkilega skemmtilegt og praktískt nám hér á Íslandi sem fer aðeins út fyrir rammann – þar sem nemendur eru í raun að byggja upp ferilskrána sína og tengslanet á meðan á náminu stendur og hafa aðgang að öflugum kennurum héðan og þaðan úr atvinnulífinu.“ Trompið hefst í mars en María hvetur fólk til að sækja um. „Okkur er nákvæmlega sama um fyrri menntun fólks eða hvar það er statt í lífinu akkúrat þessa stundina en við munum horfa til þess hvað það hefur gert hingað til, hvernig það hefur gert það og ekki síður hvað það langar til að gera í framtíðinni“.

[email protected]