Viðbúnaður vegna gangtruflana í gámaflutningaskipi við Reykjanes
Landhelgisgæslan setti varðskip, þyrlu og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum í viðbragðsstöðu laust eftir hádegi í dag vegna gangtruflana í 9000 tonna gámaflutningaskipi. Skipið var þá statt úti fyrir Reykjanesskaga og var næst landi um fjórar sjómílur SSA af Reykjanestá.
Landhelgisgæslan vildi hafa varann á því sem búist er við því að vindur snúist í suðvestanátt síðdegis. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar beið í viðbragðsstöðu á Reykjavíkurflugvelli og varðskipið Þór sigldi þegar í stað í átt að gámaflutningaskipinu en varðskipið var statt við Suðausturland. Þá var varðskipið Týr gert tilbúið til að halda af stað frá Reykjavík.
Á þriðja tímanum í dag fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þær upplýsingar frá áhöfn skipsins að hætta á frekari gangtruflunum væri liðin hjá. Viðbúnaðarstig var þá lækkað. Skipið er nú komið fyrir Garðskaga og er væntanlegt til Reykjavíkur síðdegis.