Viðbúnaður vegna erlends flutningaskips suðaustur af Grindavík
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á varðskipinu Þór og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum voru kallaðar út á mesta forgangi á öðrum tímanum í dag þegar áhöfn erlends flutningaskips tilkynnti um eld um borð í skipinu sem statt var um 25 sjómílur suðaustur af Grindavík. Seinna kom í ljós að sprenging hafði orðið í vélarrúmi skipsins. Skipstjóri þess tjáði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að reykur kæmi frá vélarrúminu en enginn eldur væri sjáanlegur. Skipið varð vélarvana eftir atburðinn en engin slys urðu á fólki. Þrettán eru í áhöfn skipsins.
Fimm reykkafarar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru sömuleiðis kallaðir út og fóru með annarri þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn. Skipið er 7500 tonna erlent flutningaskip og var á leið með farm til landsins.
Áhöfn flutningaskipsins náði tökum á ástandinu fljótlega eftir að þyrlur Landhelgisgæslunnar komu á staðinn og þurftu reykkafarar slökkviliðsins ekki að fara um borð. Í kjölfarið var ákveðið að afturkalla þyrlurnar sem og viðbragð björgunarsveita. Búið er að reykræsta skipið. Varðskipið Þór heldur sinni stefnu áfram að skipinu.
Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum.
Kl. 14:30 // Varðskipið Þór er við Garðskaga og flutnignaskipið Helgafell er nærri flutningaskipinu EF AVA, sem er í vanda.