Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 19. apríl 2002 kl. 13:01

Viðbrögð leiðtoganna í Reykjanesbæ

Víkurfréttir leituðu viðbragða forystumanna flokkanna í Reykjanesbæ við könnun Talnakönnunar sem birt var í morgun um bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ.Árni Sigfússon, Sjálfstæðisflokki:
Árni Sigfússon sagðist vera ánægður með fylgi Sjálfstæðisflokksins en hann ítrekaði þó að menn skyldu hafa í huga að nær helmingur þeirra sem svara er óákveðin.
„En engu að síður er þetta ánægjuleg vísbending um að Garðar Vilhjálmsson sem skipar sjöunda sæti á lista Sjálfstæðismanna sé líklegur í bæjarstjórn,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir og að þar væri öflugur maður á ferð. Árni sagði einnig að þó könnunin hefði sína annmarka þá væri ánægjulegt ef svona yrði raunin og er hann þakkláttur bæjarbúum fyrir stuðning sinn.

Jóhann Geirdal, Samfylkingunni:
Jóhann Geirdal oddviti Samfylkingarinnar sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið betur út en hann hafi átt von á. Þó hafi það ekki komið honum á óvart að Sjálfstæðisflokkur komi sterkur út úr könnunnum tæpum mánuði fyrir kosningar.
Jóhann ítrekaði þó það að könnunin sé gerð á sama tíma og stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sé gefin út og því telji hann að þessi munur eigi eftir að minnka verulega þegar allar stefnur verði lagðar fram og menn fari að ræða um málefnin á grundvelli stefna sinna. Að öðru leyti sagðist Jóhann vera bjarstýnn fyrir komandi kosningar í samtali við Víkurfréttir í dag.

Kjartan Már Kjartansson, Framsóknarflokki:
Kjartan Már Kjartansson, leiðtogi Framsóknarmanna, sagði niðurstöður könnunarinnar vera alvarlega áminningu fyrir framsóknarmenn í bæjarfélaginu. Hann sagði að vísu helming þátttakenda vera óákveðna, en könnunin væri þó nógu stór til að vera marktæk.
„Okkar stefna hefur ekki enn komið fram. Við ætlum okkur að ná okkar markmiðum. Það eru fimm vikur til kosninga og það er langur tími í kosningaundirbúningi“.
Kjarnan Már sagði að það væri alveg ljóst að menn þyrftu að bretta upp ermarnar og halda áfram öflugri undirbúningsvinnu fyrir kosningarnar í vor.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024