Viðbragðsstaða vegna veðurspár
Björgunarsveitir á Suðurnesjum eru í viðbragðsstöðu vegna slæmrar veðurspár næsta sólarhringinn. Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð í Reykjavík verður virkjuð núna kl. 04 og verður starfandi þar til veðrið hefur gengið yfir.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er búist við stormi eða roki á öllu landinu í nótt og á morgun og mikilli rigningu á sunnanverðu landinu. Í nótt á að hvessa með suðaustan 23-28 m/s, hvassast vestan til fyrir hádegi, en austanlands síðdegis. Slydda og síðar mikil rigning sérstaklega sunnanlands.
Þeim tilmælum er beint til almennings að gæta að niðurföllum og fergja lausa muni.
Ábyrgðamenn fyrir áramótabrennum eru beðnir um að huga að þeim vegna mögulegs foks.
Mynd: Í síðasta óveðurshvelli þurftu björgunarsveitarmenn meðal annars að hemja þennan sorpgám á Keflavíkurflugvelli. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson