Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Víða mjótt á mununum
Mánudagur 31. maí 2010 kl. 10:24

Víða mjótt á mununum

Kosningarnar á laugardaginn eru af mörgum taldar þær sögulegustu í stjórnmálasögu landsins. Miklar sviptingar og óvænt tíðindi einkenndu þessar kosningar víða um land, t.d. í Reykjavík og Akureyri. Meirihlutar féllu víða eftir áralanga setu og ljóst er að hið pólitíska landslag er gjörbreytt, einnig hér á Suðurnesjum ef Reykjanesbær er undanskilinn.

Sums staðar var afar mjótt á mununum og ekki nema örfá atkvæði sem réðu úrslitum. Þannig vantaði ekki nema þrjú atkvæði upp á að Ester Grétarsdóttir hjá B-lista í Sandgerði kæmist inn. Fast á hæla hennar kom Hólmfríður Skarphéðinsdóttir D-lista sem vantaði ekki nema átta atkvæði. Sjálfstæðismenn töpuðu því einum manni og misstu meirihlutann sem nú fellur í skaut Samfylkingar. Oddviti sjálfstæðismanna, Sigurður Valur Ásbjarnarson, hefur verið bæjarstjóri í Sandgerði í 18 ár og leiða má líkum að því að nýr meirihluti vilji annan mann í bæjarstjórastólinn.

Í Vogum vantaði aðeins 12 atkvæði upp á að Jóngeir Hjörvar Hlinason yrði annar bæjarfulltrúi hins nýja L-lista sem fékk einn bæjarfulltrúa og er kominn í oddastöðu um meirihlutamyndun.

Í Garði urðu miklar sviptingar en sjálfstæðismenn þar í bæ buðu fram undir merkjum D-lista og urðu ótvíræðir sigurvegarar kosninganna með fjóra menn kjörna. N-listinn, sem fékk fjóra menn kjörna 2006, horfði á eftir tveimur mönnum og fékk tvo á laugardaginn. Ekki var þó ýkja langt í næsta mann hjá þeim en Pálma S. Guðmundssyni vantaði 18 atkvæði til að ná inn.

Í Grindavík töpuðu Sjálfstæðismenn einum manni með naumindum en Vilhjálmi Árnasyni, öðrum manni á D-lista, vantaði 25 atkvæði til að ná inn.  Útlit er fyrir að D-listinn myndi meirihluta með Framsóknarflokknum sem varð sigurvegari kosninganna og náði þremur fulltrúum. Meirihlutaviðræður eru hafnar milli flokkanna.

Í Reykjanesbæ urðu þau óvæntu tíðindi að meirihluti Sjálfstæðisflokks hélt hreinum meirihluta með sjö fulltrúum.  Tvær skoðanakannanir stuttu fyrir kosningar höfðu gefið til kynna að D-listinn næði inn sex mönnum og því kom þessi niðurstaða nokkuð á óvart.
Jenný Þórkatla Magnúsdóttir hjá Samfylkingu hefði verið næst inn en hana vantaði 112 atkvæði upp á.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/Sölvi Logason - Beðið eftir tölum á spennandi kosninganótt.