Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Við syngjum um lífið á Ljósanótt í Reykjanesbæ
Hópurinn sem stendur að Ljósanótt þetta árið.
Miðvikudagur 28. ágúst 2013 kl. 09:15

Við syngjum um lífið á Ljósanótt í Reykjanesbæ

Ein af stærri bæjarhátíðum landsins, Ljósanótt í Reykjanesbæ, fer fram í 14. sinn dagana 5.-8.
september. Hátíðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einstök fjölskyldu- og menningarhátíð, þar sem tónlist og myndlist leika lykilhlutverk, auk fjölda annarra viðburða af ýmsu tagi, sem gleðja gesti og gangandi.

Í gær var skrifað undir samning á milli Reykjanesbæjar og Landsbankans um stuðning bankans við hátíðina en Landsbankinn er aðal bakhjarl Ljósanætur. Það kom fram í máli Einars Hannessonar, útibússtjóra Landsbankans í Reykjanesbæ, að það væri Landsbankanum sönn ánægja að koma að hátíðinni með myndarlegum hætti enda félli slíkt vel að markmiðum bankans um samfélagslega ábyrgð, sem kristallast í verkefnum eins og þessu sem hefur svo jákvæða þýðingu fyrir samfélagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ítrekaði að þrátt fyrir að Ljósanótt væri haldin undir
merkjum bæjarins, þá væri hún aðeins svipurinn af sjálfri sér ef ekki kæmi til öflug þátttaka bæjarbúa sem stæðu fyrir stórum hluta viðburðanna sjálfir. Árni sagði jafnframt að það sem einkenndi hátíðina í ár væri áhersla á umhverfið en mikið verk hefur verið unnið í umhverfismálum fyrir hátíðina. Tvö ný útilistaverk verða afhjúpuð, aðkomur í bæinn hafa verið fegraðar, sérstakur ungmennagarður er í mótun, hreystigarðar hafa verið teknir í notkun, skrúðgarðurinn hefur fengið andlitslyftingu og gríðarstór bergrisi er í smíðum.

Skúli Jónsson, talsmaður lögreglunnar, sagði öryggisgæslu og skipulagningu í kringum hátíðina orðna eins og vel smurða vél, þar sem fulltrúar bæjarins, löggæslu, Björgunarsveitarinnar Suðurnes og Brunavarna Suðurnesja vinni saman sem einn maður í því að tryggja öryggi hátíðargesta. Hann segir bæjarbúa einnig orðna mjög meðvitaða um fjölskyldugildi hátíðarinnar og að löggæslan væri alltaf til staðar til að veita þeim stuðning á þeirri braut.

Þá stiklaði Björk Þorsteinsdóttir, formaður menningarráðs Reykjanesbæjar, á stóru yfir dagskrána
sem samanstendur af einstakri setningarathöfn þar sem um 2.000 börn sleppa marglitum blöðrum til himins,tugum tónleika og myndlistarsýninga, íþróttaviðburðum, barnadagskrá, kvikmyndasýningum auk hinnar einstöku árgangagöngu. Þess verður minnst að 50 ár eru liðin síðan hljómsveitin Hljómar leit dagsins ljós, margir bíða spenntir eftir sýningunni Með blik í auga III þar sem tónlist og tíðaranda 9. áratugarins eru gerð skil með einstökum hætti og þá mun bjartasta flugeldasýning landsins ekki svíkja nokkurn mann.

Þess má að lokum geta að í ár er kynnt til sögunnar nýtt slagorð Ljósanætur, Við syngjum um lífið. Þar er vísað í ríka tónlistarhefð svæðisins og vitnað í ódauðlegan texta Keflvíkingsins Þorsteins Eggertssonar, Söngur um lífið, eins ástsælasta textahöfundar landsins. Slagorðið er ekki síður lýsandi fyrir mannlífið á Suðurnesjum þar sem léttleikinn ríkir þrátt fyrir allt,

Suðurnesjamenn halda áfram þótt á móti blási, syngja um björtu hliðarnar og njóta lífsins meðan kostur er og hvetja um leið aðra til að gera það sama.

Velkomin á Ljósanótt!