Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Við erum ríkt fjölmenningarsamfélag“
Mynd úr starfi MSS. Joanna, konan á myndinni, var einn nemenda Landnemaskólans.
Föstudagur 4. nóvember 2016 kl. 05:00

„Við erum ríkt fjölmenningarsamfélag“

- Hlutfall innflytjenda hæst á á landsvísu á Suðurnesjum, eða 16%

Innflytjendur eru 16 prósent íbúa á Suðurnesjum og er það hæsta hlutfallið á landinu. Næsthæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 14,1 prósent íbúa eru innflytjendur eða börn þeirra. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra, þar sem innflytjendur eru 5,1 prósent íbúa. Þessar upplýsingar koma fram á vef Hagstofunnar og er miðað við mannfjölda á Íslandi 1. janúar síðastliðinn. Sé miðað við landið í heild þá eru innflytjendur 9,6 prósent mannfjöldans. Það er fjölgun frá fyrra ári þegar innflytjendur voru 8,9 prósent landsmanna.

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Segir innflytjendur auðga samfélagið á margan hátt
Starfsfólk Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum (MSS) hefur verið í töluverðum tengslum við innflytjendur frá stofnun árið 1998 og þar er boðið upp á ýmis námskeið, bæði í íslensku og á öðrum sviðum. „Suðurnesin í heild sinni bera keim af ríku fjölmenningarsamfélagi og þegar við lítum yfir svæðið almennt í dag sjáum við að víða hafa innflytjendur komið að því að gera það að blómlegra samfélagi,“ segir Sveindís Valdimarsdóttir, verkefnastjóri íslenskunámskeiða hjá MSS. „Allt frá því veitingastaðurinn Mamma Mía var opnaður fyrir allmörgum árum af innflytjanda frá Argentínu, ef ég man rétt, til Fernando´s sem  stofnaður var af fjölskyldu frá Hondúras, sem einmitt var í námi hjá okkur í MSS.“

Fjölmenningin birtist á ýmsan hátt. Á dögunum var opnað Búddhof við Tjarnargötu í Reykjanesbæ og var myndin tekin við það tækifæri.

Sveindís segir ljóst að ótal mörg blómleg fyrirtæki hafi orðið til í tengslum við innflytjendur og að þeir hafi haft mikil áhrif á fyrirtækjamenningu og auðgað samfélagið á svo margan hátt. „Það eru mikil forréttindi að fá að kenna því fólki sem kemur fróðleiksfúst til okkar í nám og gefur svo mikið af sér og við lærum  ávallt mikið hvert af öðru.“

Að mati Sveindísar er matarmenning einmitt sá þáttur sem er hvað mest áberandi þegar um ólíka menningarstrauma er að ræða enda þurfum við öll að borða. „Við höfum til dæmis mjög gaman að því að elda saman og borða framandi mat hér í MSS. Við erum rík á þessu svæði að hafa svona hátt hlutfall innflytjenda. Núna í uppsveiflu ferðamannastraumsins þegar starfsfólki við Keflavíkurflugvöll fjölgar mikið hefur aftur orðið mikil fjölgun pólskra verkamanna. Pólverjar virðast alltaf reiðubúnir að koma og hlaupa undir bagga með okkur Íslendingum í uppsveiflu. Auðvitað fylgja því jafnt réttindi sem skyldur okkar til að taka vel á móti útréttri hönd erlends vinnuafl og sýna þeim virðingu og skilning.“  


Pólverjar fjölmennastir innflytjenda
Pólverjar eru enn fjölmennastir innflytjenda en á síðustu árum hefur þróunin orðið sú að nemendur MSS koma víðar að. „Við höfum einnig unnið töluvert með flóttafólki sem kemur víða að, flestir frá stríðshrjáðum löndum eins og Írak, Íran, Sýrlandi og öðrum svæðum fyrir botni Miðjarðarhafs.“ Hjá MSS hefur verið unnið að fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum sem öll hafa stuðlað að því að bæta samskipti Íslendinga við ólík menningarsvæði og fræða um málefni innflytjenda. Eitt af þeim verkefnum er Lingua Café á Café Petite á miðvikudagskvöldum frá 20:00 til 21.30. Sveindís segir það hafa gefist vel með frábæru samstarfi við eigendur. Þar gefst fólki tækifæri til að tala tungum ef svo má segja og kynnast fólki af ólíku bergi.

Nemendur MSS við útskrift úr Landnemaskólanum. Í skólanum er boðið upp á íslenskunám, tölvufræðslu, ferilskrárgerð, sjálfstyrkingu og samfélagsfræði. Konurnar á myndinni koma víða að, meðal annars frá Írak, Nígeríu, Kólumbíu, Póllandi, Malasíu, Filippseyjum, Tælandi og Albaníu. Lengst til hægri á myndinni er Sveindís Valdimarsdóttir, verkefnastjóri íslenskunámskeiða hjá MSS. Mynd/MSS

Sveindís segir brýnt að rannsaka á vísindalegan hátt hvaða áhrif innflytjendur hafa á samfélagið. „Ég hef hér verið að tala eingöngu af reynslu minni í þau tæpu tíu ár sem ég hef starfað hjá MSS. Hjartað og tilfinningin er nú samt sem áður nokkuð haldgóð þegar á reynir en það væri hins vegar áhugavert að skoða þetta samfélagsmynstur okkar út frá vísindalegu sjónarhorni.“  

 

Bjóða nýjum Sandgerðingum í vöfflur

Samsetning íbúa í Sandgerði hefur breyst mikið á undanförnum árum og eru rúm 16 prósent íbúa þar af erlendum uppruna. Þeir koma frá 14 löndum, flestir frá Póllandi eða 13 prósent. Aðrir koma frá Danmörku, Tælandi, Þýskalandi, Alsír, Lettlandi, Litháen, Filippseyjum, Portúgal, Bandaríkjunum, Noregi, Spáni, Bretlandi og Indónesíu. Að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði, var samfélagið þar lengst af einsleitt. „Hingað kom fólk frá Færeyjum upp úr miðri síðustu öld í leit að betri lífskjörum og margir þeirra settust að. Upp úr 1990 fór innflytjendum að fjölga hér eins og víða annars staðar. Það hefur auðvitað kallað á margs konar jákvæðar áskoranir og mun gera áfram. Sem dæmi má nefna áherslubreytingar innan grunn- og leikskóla, bæði til þess að mæta þörfum nemenda af erlendum uppruna og til þess að endurspegla í kennslu og starfi  fjölbreyttan bakgrunn nemendanna. Það hefur auðgað starfið og opnað nemendum stærri heim,“ segir Sigrún.

Gera þarf betur til að efla fjölmenninguna í samfélaginu og gera það opnara fyrir alla, að mati Sigrúnar. „Það er mikilvægt fyrir öll bæjarfélögin hér á Suðurnesjum því það er ljóst að íbúum af erlendum uppruna á eftir að fjölga enn meir. Það er yfirlýst stefna íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélögin séu samfélög án aðgreiningar, íbúum ekki mismunað og að allir njóti jafnra tækifæra.“

Sigrún segir það hafa jákvæð áhrif á Sandgerðisbæ að þar búi fólk af ólíkum uppruna, með ólíka menningu og siði. Það ríki meiri fjölbreytni og nýir straumar setji svip sinn á lífið. „Ég tel samt að við eigum nokkuð langt í land til að geta sagt að þátttaka í félagasamtökum, í stjórnmálum og fleiru endurspegli íbúasamsetninguna. Þátttaka íbúa af erlendum uppruna var til að mynda hlutfallslega lægri en fólks af íslenskum uppruna í kosningum til Alþingis um síðustu helgi. Í því felast ef til vill skilaboð um tilfinningu fyrir áhrifaleysi eða að standa á einhvern hátt utan við samfélagið.“ Sigrún segir það vilja bæjaryfirvalda í Sandgerði að allir geti notið sín í sínu samfélagi og að fólki sé mætt á jafnréttisgrundvelli og að virðing sé borin fyrir því sem greini fólk hvert frá öðru. Einn liður í því að koma til móts við þessar áherslur er árlegt boð í kaffi og vöfflur til nýrra íbúa í bænum. „Boðsbréfið er sent út á íslensku og pólsku enda stærstur hluti íbúa af erlendum uppruna frá Póllandi. Við kynnum bæjarfélagið og það sem fram fer er túlkað á pólsku.“ Bréf vegna íbúafunda í Sandgerði eru send út bæði á íslensku og pólsku. Þá hafa leikskólinn, grunnskólinn og tónlistarskólinn með ýmsum hætti lagt mikinn metnað í að koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna og foreldra þeirra.

[email protected]


 



Nemendur í Myllubakkaskóla á síðasta skólaári töluðu samtals 25 tungumál. Myndin var tekin í byrjun árs.