„Við erum alltaf í mínus“
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-lista í Reykjanesbæ, talar um sjónhverfingar í ársreikningi Reykjanesbæjar 2009. Þær hafi viðgengist alveg síðan 2003 þegar fasteignir bæjarfélagsins voru seldar inn í eignarhaldsfélagið Fasteign. Með því hafi verið hægt að nota söluhagnað til að sýna aðra niðurstöðu en hún var í raun. Sama væri nú að gerast með söluna á HS Orku.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, segir engan „hókus pókus” í ársreikningnum. Hann sýni hagnað sem allir geri sér grein fyrir því hvernig varð til. Ekki sé verið að bruðla í kerfinu. Það séu fullyrðingar sem menn verði þá að sýna með fullnægjandi hætti hvernig standast.
Þetta er á meðal þess sem fram kom í fyrri umræðu um ársreikning Reykjanesbæjar á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Einföld speki sem ekki þarf hagfræðimenntun til að skilja
Guðbrandur sagði niðurstöðu ársreikningsins fyrirsjáanlega þrátt fyrir að skammur tími hafi gefist til að fara ofan í saumana á honum fyrir fyrri umræðuna.
„Við vissum að söluhagnaður vegna sölu á HS Orku myndi ráða niðurstöðu þessa reiknings. Það lá fyrir í endurskoðaðri fjárhagsáætlun og það þarf enginn að vera hissa á því að niðurstaðan sé með þessum hætti.
Bæjarstjórinn nefnir hér að niðurstaðan sé einsdæmi í sögu sveitarfélaga. Vætanlega er það þannig. Væntanlega er það einsdæmi í sögu sveitarfélaga að verið sé að selja svona stóra hluti í samfélagslegum grunnstoðum eins og Reykjanesbær hefur verið að gera.
Bæjarstjóri sagði eitthvað á leið að menn yrðu að brúa bilið milli tekna og gjalda því annars værum við að ganga á eignir okkar. Þetta er sú ræða sem ég hef haldið hér síðan ég kom í bæjarstjórn. Ég gleðst þá yfir því að bæjarstjórinn skuli þá loksins vera búinn að átta sig á þessu þegar ég er að fara út úr bæjarstjórninni. Maður skilur þá eitthvað eftir sig. Þetta er einmitt það sem við þurfum að gera; að eyða ekki meira en við öflum því annars erum við að ganga á eigur okkur. Þetta er bara einföld speki sem ekki þarf hagfræðimenntun til að skilja,“ sagði Guðbrandur í ræðu sinni.
Staðan önnur en fréttatilkynningar gefa til kynna
Guðbrandur sagði tekjur bæjarsjóðs vera 6,9 milljarða á meðan gjöldin væru 8,1 milljarður. Gjöld umfram tekjur væru tæpar 1200 milljónir. Í óreglulegum liðum væri söluhagnaður vegna hlutabréfa upp á 11 milljarða.
„Ef maður reiknar fjármagnsgjöld af þeirri upphæð er verið að tala um 1700 milljónir eins og kemur fram í endurskoðunarskýrslunni. Hagnaður af óreglulegum liðum er þá 9,2 milljarðar. Þannig að tapið af reglubundnum rekstri Reykjanesbæjar á síðasta ári er við fyrstu sýn um 2,3 milljarðar.
Ef við skoðum sjóðstreynið sjáum við að haldbært fé er neikvætt um þessa upphæð. Við erum engu að skila – við erum alltaf í mínus. Þannig hefur það verið án undantekninga frá því að þessi meirihluti varð til,“ sagði Guðbrandur.
Hann sagði það ársreikning bæjarins síðast hafa skilað hagnaði árið 2005. Það hafi verið í eina skiptið. „Við höfum séð svona sjónhverfingar í ársreikningi áður. Við sáum þetta 2003 þegar fasteignirngar voru seldar inn í Fasteign. Þá var ótrúlegur halli á bæjarsjóði en hann var settur inn í þetta sem söluhagnaður eigna sem gerði það að verkum að menn gátu í fréttatilkynningum sýnt fram á aðra niðurstöðu heldur hún var í rauninni,“ sagði Guðbrandur ennfremur.
„Sveitarsjóður er hér rekinn með bullandi halla. Og það er eitthvað sem skiptir okkur máli. Enda sjáum við það í fjárhagsáætlun, sem lögð var fram um svipað leiti og menn lögðu fram endurskoðaða fjárhagsáætlun fyrir 2009, að við þurfum að grípa til mjög harðra niðurskurðaraðgerða til að ná endum saman. Sem er að minni hyggju niðurstaða lélegrar áætlunargerðar undanfarin ár. Hún hefur gert það að verkum að menn hafa alltaf vaknað upp við vondan draum þegar árið er næstum liðið og áttað sig á því að við höfum verið í bullandi hallarekstri allt árið,“ bætti Guðbrandur við.
„Sjónhverfingar sem ég kann ekki skil á“
Guðbrandur sagði ýmislegt í ársreikningnum vafa undirorpið og ekki væru allir hlutir á hreinu. Meðal annars væri ekki búið að meta virði HS veitna og Fasteignar.
Umræða um að bæjarfélagið væri að auka eignir lægi í því að skuldabréfið af sölu Hitaveitunnar væri komið inn í efnahagseikninginn. Þess vegna væru eignir að hækka.
„Fyrirtæki sem tapa eru að rýra eigið fé. Við erum að ganga á eigur okkur. Þannig að þegar menn halda því fram á sama tíma að eignir okkur séu að aukast þá er það vegna einhverra sjónhverfinga sem ég kann ekki skil á. Við sáum þetta í aðdraganda Hrunsins. Menn eru að selja sín á milli til að hækka virðið. Selja til baka og hækka virðið. En hvað er svo á bak við?
Núna er verið segja í endurskoðunarskýrslu við getum verið í verulegum greiðsluvanda á þessu ári vegna afborgana af lánum. Er það vegna þess að við erum að skila svo miklum hagnaði?
Það er vegna þess að við höfum rekið sveitarfélagið með tapi og þurfum að fara grípa til einhverra ráðstafana til að geta staðið undir skuldbindingum sem við erum búin að undirgangast,“ sagði Guðbrandur.
Enginn „hókus pókus“ reikningur
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, fylgdi ársreikningum úr hlaði í upphafi umræðunnar. Hann tók aftur til másl eftir ræðu Guðbrandar og sagðist verða 41,3% sammála honum. Sem væri sama hlutfall og eignfjárstaða bæjarins. Árni sagði ársreikninginn engan „hókus pókus” reikning Hann sýndi hagnað sem allir gerðu sér grein fyrir hvernig varð til.
„Það skiptir máli að staða okkar er sterk og við höfum svigrúm til að takast á við þann vanda sem við höfum verið að glíma við. Það má vel halda því fram að eina leiðin til að komast út úr vandanum sé eyða minna en aflað er. Þá má líka snúa þessu við og segja að við þurfum að afla meira en við eyðum. Það er það sem við erum að gera,“ sagði Árni og nefndi sem dæmi atvinnuskapandi stórverkefni sem ættu að skila því.
„Við erum að gera þetta svona vegna þess að við vitum að sú þjónusta sem Reykjanesbær er að veita er mjög sambærileg við það sem bestu sveitarfélögin eru að veita í dag. Það er ekkert verið að bruðla hér í kerfinu. Það er fullyrðingar sem menn verða þá að sýna með fullnægjandi hætti hvernig standast.
Við höfum sýnt fram á það að útgjöld t.d. í launum starfsmanna eru hlutfallslega lægri en hjá öðrum þegar við skoðum 10 stærstu sveitarfélögin.
Auðvitað liggur alveg ljóst fyrir að við höfum verið að glíma við það í rekstrinum að tekjurnar hafa verið undir gjöldum. Við hins vegar höfum getað brúað það bil með arðgreiðslum og ýmsum tekjum sem við höfum haft. Það er ekki rétt að virði sé eitthvað „constant“, það getur breysti á hvorn veginn, eftir því hvaða horfur eru í fyrirtækinu og því sem það stendur fyrir,“ sagði Árni.
Hann sagði ástæðuna fyrir því ekki væri gert ráð fyrir Fasteign inn í efnahagsreikningi að ekki væri búið að ganga þar frá ársreikningi félagsins en það bráðabrigðauppgjör sem lægi fyrir sýndi verulegum hagnað. Það væri jákvæð niðurstaða fyrir bæjarfélagið.
Ítarefni - Tengd frétt:
7,7 milljarða hagnaður hjá Reykjanesbæ