Við erum að mennta okkur út úr kreppunni
Mjög góður árangur grunnskólanema úr Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði á samræmdu prófunum.
Að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar fræðslustjóra Reykjanesbæjar benda fyrstu tölur til að afar góður árangur hafi náðst á samræmdum prófum í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði, sérstaklega í fjórða og sjöunda bekk.
Samanlagður árangur þessara sveitarfélaga er nú í fyrsta skipti kominn yfir landsmeðaltal í fjórða bekk í íslensku, langþráðar framfarir í íslensku í sjöunda bekk eru nú að koma fram og meðalárangur í stærðfræði er vel yfir landsmeðaltali, bæði í fjórða og sjöunda bekk. Enn vantar samt herslumuninn á unglingastigi í stærðfræði og ensku og niðurstöður í íslensku í sjöunda og tíunda bekk eru enn ekki ásættanlegar þótt framfarir hafi vissulega orðið á miðstigi.
Gylfi Jón þakkar árangurinn þátttöku allra aðila skólasamfélagsins. „Leikskólarnir eru að skila nemendum sínum betur undirbúnum, við erum í góðu sambandi við foreldra, sérfræðiþjónustan styður vel við innra starf skólanna, gæði kennslu hefur aukist og þekking á því sem virkar vel flæðir nú óhindrað milli skóla og skólastiga. Kennaranir okkar eru fagmenn fram í fingurgóma og eru einfaldlega að nota aðferðir sem virka. Verkefnið núna er að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst í fjórða og sjöunda bekk þannig að hann komi einnig fram í tíunda bekk í öllum skólunum.“
„Við lögðum upp með að við ætluðum okkur að mennta okkur út úr kreppunni með því að styrkja grunnnámið, minnka þannig brottfallið og fjölga með því þeim sem ljúka námi við hæfi eftir grunnskólagöngu. Það er okkur að takast og það mun í framtíðinni skila sér í auknum tekjum fyrir íbúana með betur launuðum störfum og auknum lífsgæðum.“