Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Við eigum alltaf að geta fundið lausnir“
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartar framtíðar í Suðurkjördæmi
Laugardagur 19. mars 2016 kl. 06:00

„Við eigum alltaf að geta fundið lausnir“

Vikan sem er að líða var viðburðarík hjá þingmanninum Páli Vali Björnssyni úr Grindavík en sá fágæti atburður átti sér stað á Alþingi á þriðjudag að tvö þingmál þingmanns úr minnahluta voru samþykkt samhljóða. Páll Valur er þingmaður Bjartrar framtíðar og tilheyrir því minnihlutanum á Alþingi. Annars vegar var það þingmál hans um breytingu á lögum um fæðingarorlof fyrir foreldra sem eignast andvana börn eftir 22. vikna meðgöngu sem var samþykkt. Hins vegar þingsályktunartillaga um að 20. nóvember á ári hverju verði helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.

Upphafið að því að Páll Valur ákvað að leggja til breytingar á lögum um fæðingarorlof má rekja til þess er hjónin Einar Árni Jóhannsson og Guðmunda Guðlaug Sveinsdóttir vöktu athygli á því að samtals áttu þau aðeins rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi eftir að hafa eignast andvana dóttur, Önnu Lísu, þann 5. september 2014. Lögunum var breytt á þann veg að hvort foreldri um sig fær þrjá mánuði í fæðingarorlof. Páll Valur segir þetta mikið réttlætismál. „Ég vildi ná fram fullu fæðingarorlofi, 9 mánuðum, fyrir foreldra sem hafa eignast andvana barn en það eru alltaf málamiðlanir í pólitík. Þetta var gott skref sem ég er mjög ánægður með og heyri úti í samfélaginu að margir eru ánægðir með að þetta hafi verið samþykkt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Páll Valur er með kennaramenntun og vann áður með Einari Árna í Njarðvíkurskóla. „Þau komu fram í fjölmiðlum og skoruðu á okkur þingmenn að breyta þessu. Ég tók við boltanum frá þeim og hélt áfram með málið. Til þess er ég,“ segir hann. Páll kveðst alla tíð hafa haft mikinn áhuga á málefnum barna. Í samstarfi við UNICEF, Barnaheilla og Umboðsmann Barna hefur hver flokkur skipað einn þingmann sem talsmann barna á Alþingi og gegnir Páll Valur því hlutverki fyrir Bjarta framtíð. Hann kveðst hafa tekið hlutverkið alvarlega og hefur síðan hann tók við því unnið að því að 20. nóvember ár hvert verði helgaður mannréttindum barna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Hugmyndin er að á þeim degi verði sáttmálinn kynntur fyrir börnum og meira gert úr honum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að allir dagar eigi að vera helgaðir mannréttindum barna en þetta er fyrsta skrefið í þá átt að kynna sáttmálann betur fyrir börnum.“

Samkvæmt nýlegri könnun MMR treysta aðeins 17 prósent landsmanna Alþingi og oft heyrist í umræðunni að þingmenn eigi erfitt með að vinna saman til heilla fyrir landsmenn. Aðspurður hvort að tíðindi vikunnar gefi tilefni til bjartsýni um að það sé að breytast segir Páll Valur að alltaf eigi að vera bjartsýnn og ekki síst í starfi þingmannsins. „Ég fór af stað í pólitík með það að fororði að bæta vinnubrögð og vinna að meiri sátt. Það er oft erfitt. Það er búinn að vera mikill órói í samfélaginu og það er slæmt hvað Alþingi mælist með lítið traust því þetta er ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Auðvitað eigum við að reyna að gera allt sem við getum til að vinna saman og samþykktirnar auka mér bjartsýni.“ Hann segir að alþingismenn yfir höfuð séu gott fólk sem leggi sig allt fram en hafi misjafnar skoðanir. „Þessi pólitíski kúltúr hefur verið helsjúkur lengi og það þarf að laga þennan sjúkling sem pólitíkin er. Ég hef tamið mér það sem þingmaður að koma vel fram við alla og hef kannski áunnið mér smá virðingu með því. Við eigum alltaf að geta talað okkur niður á lausnir en það eru auðvitað alltaf einhver mál sem um ríkir ágreiningur og þá ræður meirihlutinn.“