Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

VG á Suðurnesjum ályktar
Mánudagur 30. mars 2015 kl. 12:43

VG á Suðurnesjum ályktar

Aðalfundar VG á Suðurnesjum var haldinn á Cafe Petite í Keflavík 22. mars 2015. Fundurinn sendi frá sér fjórar ályktanir eftir fundinn.

Styðjum launakröfur verkalýðs

Aðalfundur VG á Suðurnesjum haldinn á Café Petite í Keflavík 22. mars 2015  
styður framkomnar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar um verulegar launahækkanir, ekki síst réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta og leggur áherslu á að í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Nýjar kannanir ASÍ hafa sýnt að lægstu laun á Íslandi eru um 30% lægri en laun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga einfaldlega ekki fyrir brýnustu þörfum enda ná þau ekki þeim framfærsluviðmiðum sem ríkið gefur út. Fundurinn hvetur til þess að launataxtar verkalýðsfélaga verði vísitölutryggðir og að samið verði um krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana.

Verndum náttúruperlurnar

Aðalfundur VG á Suðurnesjum haldinn á Café Petite í Keflavík 22. mars 2015  
telur að fara eigi varlega í virkjanamálum og mótmælir þeim vinnubrögðum Orkustofnunar að gerast erindireki orkugeirans með því að endurlífga fjölda virkjanahugmynda, sumar í nýjum búningi, sem búið var að hafna og færa í verndarflokk Rammaáætlunar.

Jarðlínur í jörð – jörðum álver í Helguvík

Aðalfundur VG á Suðurnesjum haldinn á Café Petite í Keflavík 22. mars 2015 ítrekar þá stefnu félagsins að álver í Helguvík hafi frá upphafi verið galin hugmynd og á sinn þátt í því hvernig nú er komið fyrir Reykjanesbæ. Brýnt er að jarða endanlega þá hugmynd og reyna að finna önnur not fyrir byggingarnar sem búið er að reisa. Þar með yrðu áberandi risaloftlínur milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar með öllu óþarfar og nóg að leggja jarðstreng í öxl Reykjanesbrautar til að tryggja örugga raforku.
Þá hvetur fundurinn til þess að hagkvæmni jarðlína verði könnuð betur, sérstaklega í þeim byggðum landsins sem búa við ótryggt rafmagn.

Reykjanesbær úr klóm íhaldsins

Aðalfundur VG á Suðurnesjum haldinn á Café Petite í Keflavík 22. mars 2015 harmar hvernig viðskilnaður íhaldsins í Reykjanesbæ var eftir að hafa ráðið þar lögum og lofum í  nærri tvo áratugi og rekið þar tilraunaeldhús frjálshyggju, óhefts einkaframtaks og stóriðjustefnu. En nú er botninum náð og vonandi að lærdómur verði dreginn af dapurri reynslu af hægristefnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024