Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

VF 1993: Eurovision-drottningin hafmeyja í Bláa lóninu
Hafmeyja í Bláa lóninu. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Föstudagur 12. febrúar 2021 kl. 17:14

VF 1993: Eurovision-drottningin hafmeyja í Bláa lóninu

Úr Víkurfréttum fimmtudaginn 18. mars 1993

„Ég myndi gera allt fyrir frægðina, nema kannski að koma nakin fram“. Þessi orð hafa margir látið falla og jafnvel sungið í dægurlagatextum. Ingibjörg Stefánsdóttir, söngkona í Pís of keik og fulltrúi Íslands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1993, sem fram fer á Írlandi í vor er frökk leik- og söngkona sem tekur sér ýmislegt fyrir hendur. Hún var í Svartsengi um helgina þegar tökur á nýju japönsku rokkmyndbandi fóru þar fram. Ingibjörg kom fram í myndbandinu í gervi hafmeyju og varð að gera sér að góðu að liggja á hraundranga í um klukkustund berbrjósta í hrollköldu veðri. Mótleikarinn var hins vegar einn þekktasti kvikmyndaleikari og dægurlagasöngvari Japana, Nagase Makatoshi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Makatoshi þessi fékk hins vegar ekki að snerta á Eurovisionsöngkonunni okkar, henni Ingibjörgu, heldur varð bara á láta sér dreyma um hafmeyjuna.

Ekki var laust við að nokkrir áhorfendur að kvikmyndatökunni væru farnir að kenna í brjóst um Ingibjörgu sem lá úti í kuldanum en hún harkaði af sér, enda hlýjaði tilhugsunin um notalega stund í lóninu að lokinni myndatöku.

Hilmar Bragi komst í návígi við hafmeyjuna og tók meðfylgjandi mynd af Ingibjörgu Stefánsdóttur.

Þess má geta til gamans að Japanarnir komu um 15.000 kílómetra „veg“ til að taka myndbandið á þessari „túndru taumlausra lægða“, eins og einn ágætur sjónvarpsmaður komst að orði.