Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vetrarvertíð byrjar rólega
Erling KE.
Sunnudagur 13. janúar 2019 kl. 08:00

Vetrarvertíð byrjar rólega

Búmm, búmm, búmm! Er það ekki svona sem maður skrifar stemmninguna sem felst í því að sprengja gamla árið í burtu. Býst fastlega við því. Alla vega gleðilegt nýtt ár lesendur góðir og árið eins og öll önnur ár hefst á vetrarvertíðinni 2019.
 
Á árum áður þá fylltust bæirnir hérna bæði af bátum og fólki, þá voru fiskvinnsluhús nokkur í Grindavík. Mörg í Sandgerði og Garði. Hellingur í Keflavík og líka smá í Vogum og Höfnum. Bryggjurnar í Keflavík, Grindavík og Sandgerði voru vanalega fullar af bátum og kapp um að vera aflahæstur í lok vertíðarinnar sem var 11. maí hvert ár.
 
Núna árið 2019 má segja þetta svo til steindautt eða er það þannig? Nei, kanski ekki alveg. Því jú þessi svokalla vertíðarstemmning er að mestu farin en þó er metingur milli sjómanna á bátunum hverjir fiska meira og menn fylgjast hver með öðrum.
 
Þetta horfir öðruvísi út á við. Fjölmiðlarnir á árum áður birtu reglulega aflafréttir af bátum og eða togurum sem voru að mokfiska en í dag þá má segja að eini fjölmiðilinn sem birti fréttir um svoleiðis sé síðan sem ég er með, www.aflafrettir.is. Meira segja að 11. maí sem er lokadagurinn og var þannig í dagatölum er horfinn af dagatölum. 
 
Fáfræði blaðamanna í dag, sérstaklega á stóru fjölmiðlunum, um sjávarútveg er oft á tíðum hálfgerður brandari. Get nefnt tvo dæmi. Línubáturinn Núpur BA strandaði núna í desember rétt við Patreksfjörð og í fréttum var sagt að togarinn Agnar BA hefði komið á strandstað.... hmmm hóst, hóst. OK, fyrir það fyrsta þá hefur enginn togari verið gerður út frá Patreksfirði núna í um tuttugu ár og Agnar BA er ekki nema um 20 tonna plastbátur. 
 
Hitt dæmið er þegar Grímsnes GK fékk á sig brot fyrir nokkrum árum síðan og sigldi hálflaskaður í höfn. Grímsnes GK er eins og við vitum gamli Happasæll KE og hefur að mestu verið netabátur hérna frá Suðurnesjum, en fjölmiðlar kölluðu bátinn, t.d. togara, netabát, dragnótabát og meira segja loðnubát.
En nóg um þetta. Vertíðin er semsé byrjuð og hún byrjar mjög rólega. Leiðindaveður hefur verið og sjósókn verið erfið fyrir bátana. 
 
Dóri GK er með 5,7 tn. í 1., Hafdís SU 24 tn. í 3, Guðbjörg GK 17 tn. í 2, Óli á Stað GK 15 tn. í 3, Hulda GK 7,8 tn. í 1 og Katrín GK 2,2 tonn í 1, allir í Sandgerði og allir á línu. 
 
Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK með 8,4 tn. í 2 og Siggi Bjarna GK 2,2 tonn í einum róðri. 
Hjá netabátunum er líka ansi róleg byrjun. Maron GK rétt með um 1 tonn í einni löndun. Grímsnes GK með 6,5 tonn í einum túr, landað í Þorlákshöfn og Erling KE 15,1 tonn í einum, landað í Sandgerði.
Það horfir reyndar til betri sjósóknar næstu daga og því má búast við að fleiri bátar verði komnir með afla þegar næsti pistill kemur.

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024