Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vetrarstarfið komið í gang í Perlunni
Fimmtudagur 2. september 2004 kl. 14:56

Vetrarstarfið komið í gang í Perlunni

Líkamsræktarstöðin Perlan er farin í gang með glæsilega vetrardagskrá þar sem kennir ýmissa grasa. Helsta nýjungin í ár er námskeið í Ropeyoga, en það er nýjasta æðið í líkamsræktarheiminum í dag.

„Það er vika síðan vetrardagskráin byrjaði og það er allt í botnkeyrslu núna,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, betur þekkt sem Sigga í Perlunni. „Fólk er að koma sér aftur í þessa rútínu þar sem skólarnir eru að byrja og svoleiðis og kveikir á því hvað því líður vel að vera í ræktinni.“ Sigga segir fólk líka sækja mikið í sundlaugina eftir tíma í Perlunni. „Það er yndislegt að fara í pottinn og gufuna eftir gott púl. Svo er líka gott að taka nokkrar ferðir í lauginni til að teygja á.“

Aðstaðan hefur verið bætt nokkuð í sumar og ber þar helst að nefna fjölgun spinning hjóla auk þess sem flatskjám hefur verið komið fyrir við hlaupabrettin þar sem gestir geta sjálfir valið hvað horft er á.

„Við verðum með öðruvísi þema fyrir veturinn þar sem við verðum með rosalega fjölbreytta dagskrá og erum með allt það nýjasta í boði,“ segir Sigga. „Við erum með palla, box, spinning, Tae Bo, yoga og nú erum við líka að byrja með Ropeyoga, sem er heitasta nýjungin í dag.“ Sigga segist mjög spennt fyrir nýja námskeiðinu. „Við vorum með kynningarfund fyrir skömmu og undirtektirnar voru frábærar.“ Ropeyoga felst í því að iðkendur gera æfingar á sérgerðum bekk. Æfingakerfið er þróað og hannað af Guðna Gunnarssyni, líkamsræktarfrömuði, en hann hefur starfað erlendis í áraraðir.

„Í Ropeyoga er unnið út frá miðju líkamans, bæði andlega og líkamlega og er sérstaklega til að styrkja kvið og bak. Það hentar fyrir alla, en sérlega vel fyrir fólk sem á við bakvandræði að stríða og líka fyrir íþróttafólk sem vantar þessa fínu áherslu og notar sér það fyrir mót og þess háttar til að ná fullum sveigjanleika á vöðvana.“

Sigga segir að afar mikilvægt sé að fylgjast vel með í líkamsræktarheiminum, en hún er einmitt að fara á tvær kynningarráðstefnur á næstunni.
„Við erum að fara á ráðstefnu um helgina þar sem við munum kynna okkur það sem er að gerast í líkamsræktarmálum. Þar verður helling að gerast og mikið af erlendum kennurum, en svo fer ég á aðra alþjóðlega ráðstefnu sem verður í Blackpool á Englandi í nóvember og þar verður ennþá meira í boði.“
Sigga hefur sótt þá ráðstefnu á hverju ári og hefur komið þaðan með fjölmargar nýjar hugmyndir. „Ég kom með sundboxið með mér í fyrra og það var alveg nýtt hér á Íslandi. Við erum nú að bíða eftir að Sundlaugin í Njarðvík komist í gang aftur og þá byrjum við aftur með það og sundleikfimi fyrir óléttar konur, en það hefur ekki verið hér á Suðurnesjum áður.“

Starfsemi Perlunnar í vetur mun ekki einskorðast við stöðina sjálfa heldur verður farið í margvíslegar kynnisferðir í tengslum við námskeiðin. „Við munum m.a. fara til Guðjóns Bergmann, yogakennara, til að sjá hvað er í gangi hjá honum. Eins förum við til Unnar Pálsdóttur í Sporthúsinu, en það er alltaf gaman að skoða hjá öðrum þó að við höfum það rosalega gott hér!“

VF-mynd/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024