Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vesturgötuslysið: Rannsókn stendur enn yfir
Fimmtudagur 3. janúar 2008 kl. 14:37

Vesturgötuslysið: Rannsókn stendur enn yfir

Rannsókn stendur enn yfir á Vesturgötuslysinu svokallaða, þar sem ekið var á Kristinn Veigar Sigurðsson í lok nóvember síðastliðnum.


Pólverji á fertugsaldri hefur verið í farbanni vegna málsins, grunaður um að hafa ekið á Kristinn Veigar með þeim afleiðingum að hann lést.  Hann var fjögurra ára gamall. Hinn grunaði  hefur þráfaldlega neitað að vera valdur að slysinu. Rannsókn á efnisþráðum sem fundust á bíl mannsins leiddi í ljós samsvörun á þráðum úr fatnaði Kristins Veigars.
Farbannið rennur út þann 8. janúar og má reikna með að farið verði fram á framlengingu þess ef rannsóknin hefur ekki leitt til niðurstöðu fyrir þann tíma.

Á þessari stundu er ekki annað vitað en að Pólverjinn sé enn á landinu en nokkuð hefur verið deilt á þá ráðstöfun að hafa erlenda menn í farbanni í ljósi þess að fimm grunaðir sakamenn með erlent ríkisfang hafa á undanförnum mánuðum rofið farbann og yfirgefið landið.
Að sögn Eyjólfs Kristjánssonar, fulltrúa hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hefur hinn grunaði tilkynningaskyldu á lögreglustöð með reglulegu millibili hvern sólarhring og hefur ekki orðið misbrestur á því hingað til.

 

Mynd: Hinn grunaði leiddur fyrir dómara sem kvað upp gæsluvarðhaldsúrskurð yfir honum í byrjun desember. Hann var síðar settur í farbann til 8. janúar. VF-mynd: elg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024