Veski með kókaínpoka fannst á víðavangi
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning þess efnis að veski sem innihéldi poka með meintu kókaíni hefði fundist utan dyra í Keflavík. Í því var einnig pakkning af kamagrageli. Skilríki voru í veskinu en þegar lögregla ræddi við eiganda þess þvertók hann fyrir að hafa haft vitneskju um fíkniefnin eða að neyta fíkniefna yfir höfuð. Hann samþykkti að undurgangast synatökur á lögreglustöð og var niðurstaða þeirra jákvæð á neyslu kókaíns.
Þá fann lögregla um 20 grömm af kannabisefnum hjá húsráðanda einum við hefðbundið eftirlit með fíkniefnum í umdæminu.
Enn fremur framvísaði farþegi í bifreið, sem stöðvuð var við eftirlit, kannabisefni sem viðkomandi var með á sér.
Gestur í Bláa lóninu fékk í vikunni aðsvif með þeim afleiðingum að hann féll fram fyrir sig og lenti á flísalögðu gólfi. Hann fékk skurð á hökuna sem mikið blæddi úr. Viðkomandi var fluttur með sjúkabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Enn fremur varð vinnuslys þegar starfsmaður í veiðarfæragerð missteig sig illa og var talið að hann hefði slitið hásin. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á HSS og Vinnueftirlitinu gert viðvart.