Verulegar áhyggjur af framferði ríkisstjórnarinnar í garð Reyknesinga
„Ríkisstjórnin gerir sér enga grein fyrir hvað þetta er alvarlegt mál. Það var farið yfir mat á Suðvestur-línum fyrir þremur árum, árið 2006, og kom þá fram skýr niðurstaða stjórnvalda. Í kjölfar þessarar niðurstöðu stjórnvalda er búið að fara í 25 þúsund milljóna kr. fjárfestingar í orkumannvirkjum, bæði frá HS og OR, ásamt undirbúningi mannvikja og búnaðar Norðuráls í Helguvík.
Nú er ríkistjórnin að kippa fótunum undan þessu með ákvörðun umhverfisráðherra. Frekari töf á þessum verkum getur þýtt að menn hverfa frá þeim,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í samtali við Víkurfréttir um ákvörðun umhverfisráðherra að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Málinu hefur verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnilegrar meðferðar og úrlausnar.
„Ef menn eru svo illa upplýstir að halda að þetta sé bara til að tefja eða skemma verkefnin sem við erum að vinna hér að, álver og kísilver í Helguvík og rafrænt gagnaver að Ásbrú, þá þurfa þeir að vita að það stendur fyrir dyrum stækkun álvers í Straumsvík. Allt getur þetta orðið til að erlendir aðilar fá yfir sig nóg af fáránlegum stjórnarháttum á Íslandi og þora ekki að koma nálægt okkur og hverfa frá. Það er því full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af framferði þessarar ríkisstjórnar í okkar garð sem búum hér á Reykjanesskaganum.
Þessu til viðbótar er alveg ljóst að við íbúar Suðurnesja búum við mjög veikt rafflutningakerfi að og frá svæðinu og þurfum nauðsynlega að fá styrkari línur, hvað sem líður stærri verkefnum. Við erum með virkjanir sem geta flutt raforku inn á landsnetið en kerfið héðan er of veikt. Þess vegna þarf að styrkja þessar línur óháð öllum þeim miklu atvinnutækifærum sem bíða okkar, ef við fáum vinnufrið,“ sagði Árni Sigfússon í samtali við Víkurfréttir.
Mynd: Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar kynnti sér í dag framkvæmdir við gagnaver Verne Global á Ásbrú í Reykjanesbæ.