Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Verkfall sjúkraliða mun hafa mikil áhrif hjá HSS
Miðvikudagur 14. október 2015 kl. 17:32

Verkfall sjúkraliða mun hafa mikil áhrif hjá HSS

- Fækka þarf heimsóknum heimahjúkrunar um allt að 80 prósent

„Ef af verkfalli sjúkraliða verður mun það hafa mikil áhrif á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sérstaklega á sólarhringsdeildum stofnunarinnar, svo sem á legudeild, heimahjúkrun og Víðihlíð sem er hjúkrunardeild í Grindavík,“ segir Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Tveggja sólarhringa verkfallslota sjúkraliða hefst að öllum líkindum á miðnætti í kvöld.
 
Hjá HSS starfa 60 til 65 sjúkraliðar í tæplega 40 stöðugildum. Starfsemin mun skerðast um 40 til 80 prósent. „Sem dæmi má nefna að rýmum á legudeild þarf að fækka úr 31 rými í um það bil 12 rými og fækka þarf heimsóknum í heimahjúkrun um allt að 80 prósent. Starfsfólk HSS mun leggja sig fram um að veita alla bráðnauðsynlega þjónustu meðan á verkfalli stendur og leita eftir undanþágum fyrir viðbótarstarfsmenn þar sem nauðsyn krefur,“ segir Þórunn.
 
Fundi samninganefndar ríkisins með SFR, Sjúkraliðafélagi Íslands og Landssambandi lögreglumanna lauk á fimmta tímanum í dag og mun næsti fundur fara fram klukkan eitt á morgun, samkvæmt frétt á vef RÚV.
 
Verði ekki búið að semja við sjúkraliða í næstu viku mun önnur verkfallslota hefjast miðvikudaginn 21. október og standa í tvo sólarhringa. Búið er að skipuleggja slíkar verkfallslotur næstu vikur. Þá hafa sértækar aðgerðir verið boðaðar á þremur stofnunum, þar á meðal á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, og munu þær standa frá klukkan 8 til 16 á miðvikudag, fimmtudag og föstudag í næstu viku. Slíkar sértækar aðgerðir munu svo halda áfram næstu vikur náist ekki að semja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024